| Mynd vantar |
IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950
Sönkonur Anna Þórhallsdóttir. Hún söng í Gamla Bíó í maí 1945. Var áður kunn fyrir söng í útvarp. Hefur þýða sópranrödd og helgar sig því sviði, sem ljóðasöngvurum er sérstaklega afmarkað. Þótt söngur hennar hafi ekki komið fram í stórbrotinni mynd, þá var hann innilegur og sannur. Guðríður Guðmundsdóttir lék undir söngnum. Anna Þórhallsdóttir er fædd 24. sept. 1904.
Elsa Sigfúss. Hún er fædd í Reykjavík 19. nóv. 1908, dóttir Sigfúsar Einarssonar tónskálds og Valborgar konu hans. Elsa er systir Einars Sigfússonar fiðluleikara í Árósum. Hún lærði söng í konunglega tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn hjá Dóru Sigurðsson, síðan í Dresden og Englandi. Hún söng í fyrsta sinn opinberlega árið 1934, í Kaupmannahöfn, og hefur síðan sungið víða, í Skandinavíu, Þýzkalandi og Englandi. Í Reykjavík hefur hún margoft sungið, t.d. árin 1936-38 og 1945-47, oftast með undirleik móður sinnar.
Ungfrú Elsa Sigfúss er fjölhæf söngkona, jafnvíg á kirkjutónlist, klassísk sönglög og létt vísnalög á salon sviðinu, sem hún syngur mikið. Hún er eftirsótt óratóríusöngkona. Hér á landi hafa íslenzk sönglög átt mestan þátt í að skapa henni vinsældir, Hún söng í „Leðurblökunni“ eftir Johann Strauss í Þjóðleikhúsinu 1952.
Röddin er djúp og sérkennileg altrödd og minnir helzt á hina mjúku tóna cellósins, en hún er ekki mikil. Ungfrú Elsa Sigfúss þekkir sín takmörk og spennir bogann ekki of hátt og velur sér verkefni við hæfi raddarinnar. Um gáfur hennar og smekkvísi verður ekki deilt.
Engel Lund. Hún er fædd í Reykjavík 14. júlí 1900, dóttir Lunds lyfsala í Reykjavíkurapóteki. Gagga Lund var hún kölluð í gamla daga, Þegar hún var smátelpa hér í Reykjavík. Hún fór 11 ára gömul til Danmerkur og lauk þar stúdentsprófi. Hún er sérstaklega góð þjóðlagasöngkona og hefur ferðast víða um Evrópu og sungið þjóðlög með aðstoð píanóistans Rauter.
Ungfrú Engel Lund hefur margoft sungið hér í Reykjavík, t.d. í Trípólí leikhúsinu í marz 1947, með aðstoð Páls Ísólfssonar, þá söng hún á sjö tungumálum. Ennfremur í Austurbæjarbíó í apríl 1948 einnig með aðstoð Páls. Íslenzk þjóðlög sungin af henni eru alkunn af hljómplötum. Hún er söngkennari við Tónlistarskólann í Reykjavík.
Guðmunda Elíasdóttir. Fyrstu sjálfstæðu hljómleikar hennar hér í Reykjavík voru í nóvember 1945. Þá átti hún að baki sér söngnám hjá Dóru Sigurðsson í Kaupmannahöfn. Á þessum hljómleikum vann hún sigur. Röddin er tindrandi bjartur sópran, og hreimfögur, og meðferðin örugg og háttvís. Raddsviðið er furðu mikið. Hún hélt aftur sjálfstæða hljómleika í Reykjavík í maí 1948 með aðstoð ungfrú Önnu Pjeturss (píanó) dr. Edelstein (cello) og Þórhalls Árnasonar (celló). Hún hefur oft sungið þar fyrir utan í Reykjavík við ýms tækifæri, meðal annars Madalena í „Rigoletto“ í Þjóðleikhúsinu um vorið 1951.
Guðrún Á. Símonar. Í ætt hennar eru miklir söngmenn. Árni Thorsteinsson segir frá því í „Hörpu minninganna“, er hann hefur talið upp söngmenn í kórum á dögum Jónasar organista Helgasonar: „Allir þessir menn, sem hér hafa verið taldir, voru fyrirtaks raddmenn, t.d. Jón Guðmundsson frá Hól. Rödd hans er einhver mesta bassarödd, sem hér hefur þekkst. Söng hann oft í Dómkirkjunni við messu uppi við orgelið, og titruðu bekkirnir undir fólkinu, þegar Jón fór að beita sér nokkuð - svo mikið var hljómmagnið“. Jón frá Hól er bróðir Þórðar, afa Guðrúnar Á Símonar, og var hann einnig mikill raddmaður. Símon Þórðarson, faðir Guðrúnar, hafði mikla rödd og svo víðfeðma, að hann gat jafnt sungið bassa sem tenór í kórum (sjá bls. 206). Guðrún Á. Símonar er ekki illa í ætt skotið, því að hún er mikil söngkona; röddin há og björt sópranrödd, og mikil músík rennur í æðum hennar. Sönggleðin skín út úr henni, þegar hún syngur.
Guðrún Á Símonar er fædd í Reykjavík árið 1924. Fyrst kom hún fram í Reykjavíkurútvarpinu sem söngkona 17 ára gömul árið 1941 og þá með hljómsveit Bjarna Böðvarssonar. Hún stundaði söngnám í London í fimm ár (1943-1948), fyrstu þrjú árin við Guildhall School of Music and Drama, og síðan 2 ár við The English Opera Studio, og lauk prófi úr báðum skólunum með góðum vitnisburði.
Af mörgum hljómleikum hennar í Reykjavík skal nefna hljómleika í Gamla Bíó í október 1945 með aðstoð Karlakórs Reykjavíkur, og ennfremur hljómleika á sama stað um haustið 1946, um haustið 1948, um haustið 1950 og þá syngur hún einnig í Þjóðleikhúsinu. Á öllum þessum hljómleikum er Fritz Weisshappel undirleikarinn.
Söngur hennar í óperum í Reykjavík tilheyrir næsta tímabili, en hún hefur sungið hér í Þjóðleikhúsinu m.a. eftirtalin hlutverk: Santuzza í „Cavalleria rusticana“ eftir Mascagni (1954), Mimi í „La Boheme“ (1955) og Floria Tosca í „Tosca“ (1957), báðar eftir Puccini.
María Markan Hún er fædd í Ólafsvík 25. júní 1905. Hún er systir Einars og Sigurðar Markan söngvara og Elísabetar, sem einnig er kunn söngkona. María Markan lærði að syngja hjá Ellen Schmücker í Berlín frá 1928 og nær óslitið til 1935. Hún hélt fyrstu sjálfstæðu tónleika sína í Berlín 16. febrúar 1935 með undirleik prófessors Michaels Raucheisen, sem er frægur píanóleikari og mjög eftirsóttur undirleikari. Hún vann þá mikinn sigur. Hún var ráðin að Schilleróperunni í Hamborg 1935, og söng þar frá því um haustið til næsta vors, en þá rann samningurinn út. Fór hún Þá aftur til Berlínar og hélt áfram í tímum hjá sínum gamla kennara, Madame Ellen Schmücker. Síðan var hún ráðin að óperunni í Zittau, skammt frá Dresden, og var það árssamningur. Forráðamenn óperunnar vildu endurnýja samningin annað ár til viðbótar, en því boði hafnaði María, og fór hún þá aftur til Berlínar vorið 1937. Valt nú á ýmsu hjá henni eins og gerist og gengur í lífi listamanna, sem ekki hafa unnið fullnaðarsigur, og varð henni ljóst, og reyndar sagt það af sjálfum forstjóra Berlínaróperunnar, að það eitt myndi hamla því, að hún kæmist í fremstu röð söngvara í þýzkalandi, að hún væri útlendingur.
En brátt fór að vænkast hagurinn. Hún söng á norrænni viku í Kaupmannahöfn 1938 og ennfremur greifafrúna í „Brúðkaupi Figarós“ eftir Mozart í konunglega leikhúsinu þar í borg. Fritz Busch, hljómsveitarstjórinn heimsfrægi, hafði fengið augastað á söngkonunni og réð hana til að syngja þetta hlutverk í Glyndbourne-óperunni í Englandi, en þessu óperuhúsi stjórnaði hann. Þetta var mestur heiður, sem Maríu Markan hafði hlotnast fram að þessu, því valið er úr beztu söngvurum álfunnar í hvert sinn til að syngja þar. María tók við þessu hlutverki af Aulikki Rautavara, beztu söngkonu Finnlands, sem minnst verður á hér á eftir. Glyndbourne-óperan starfar á sumrin, og til skams tíma voru þar eingöngu fluttar óperur eftir Mozart, en ekki eftir önnur tónskáld.
Er heimstyrjöldin var skollin á, breyttist viðhorfið, og fór María þá til Ástralíu, skv. samningi við Ástralíuútvarpið, og söng þar í útvarp og í konsertsölum í ýmsum borgum. Henni var hvarvetna mjög vel tekið og framlengdi útvarpið samninginn við hana. Dvaldi hún ár í landinu.
Síðan lagði hún leið sína til Kanada, hélt sjálfstæða tónleika í Winnipeg og víðar, og síðan til New York. Þar var hún ráðin við Metropolitanóperuna 1941-1942. Þangað eru sjaldan ráðnir aðrir listamenn en þeir, sem hlotið hafa heimsfrægð.
Í Reykjavík hefur María Markan margoft sungið, allt frá því að hún var enn við söngnám í Berlín - hún söng þá hér heima í sumarleyfum, t.d. árin 1930, 1933 og 1938. Ennfremur söng hún hér um haustið 1946 og sumarið 1949. Undirleikarinn er Fritz Weisshappel, sem var kvæntur systurdóttur hennar. Loks söng hún hér í Þjóðleikhúsinu um veturinn 1957 í óperunni „Töfraflautunni“ eftir Mozart. Í óperunni koma fram þrjár þernur, sem syngja saman terzetta. María söng þá hlutverk fyrstu þernunnar.
María Markan hefur háa sópranrödd, sem er í senn mikil og glæsileg. Raddsviðið er sérstaklega mikið og dýpstu tónarnir svo fagrir, að mörg alt-söngkonan mætti öfunda hana af þeim. Hér á landi á hún vinsældir sínar mest að þakka söng sínum í ljóðrænum lögum, ekki sízt íslenzkum, sem hún syngur mjög fallega. En hún er meiri sem óperusöngkona. Hin mikla rödd hennar fær fyrst notið sín til fulls í óperuaríum. Dr. Páll Ísólfsson sagði í Morgunblaðinu eftir söng hennar sumarið 1949: „Mesta söngkona Íslands fram að þessu.“
María Markan var gift George Östlund og var búsett í Bandaríkjunum 1940-1955. Þau hjónin fluttust heim til Íslands vorið 1955. Hún missti mann sinn í árslok 1961 og býr síðan í Reykjavík og kennir söng.
Systurnar Nanna og Svanhvít Egilsdætur eru kunnar sópransöngkonur. Báðar hafa lært listina erlendis og hafa margt til brunns að bera, sem prýða góðar söngkonur.
Nanna söng í Gamla Bíó í júní 1938 með aðstoð Emils Thoroddsen píanóleikara og í nokkrum lögum með aðstoð hans og feðganna Þórhalls Árnasonar og Höskulds Þórhallssonar, sem báðir eru cellóleikarar. Hún söng aftur í Gamla Bíó í marz með aðstoð dr. Urbancic, eftir langa dvöl í Þýzkalandi og var þar óperusöngkona. Enn söng hún í Tripolíleikhúsinu með aðstoð dr. Franz Mixa og söng þá eingöngu lög eftir Schumann.
Svanhvít söng á kammermúsíkkvöldi í Gamla Bíó í nóvember 1948 lög eftir innlenda og erlenda höfunda með undirleik Lanzky-Ottó. Þá léku þeir Jan Moravek og Lanzky Otto sónötu fyrir píanó og klarínett eftir Brahms. Svanhvít söng í óperunni „Traviata“ hlutverk Flora Bervoix, en óperan var Þá flutt í Þjóðleikhúsinu um vorið 1953.
Svava Einars. Sópransöngkona. Hún söng í Gamla Bíó í marz 1949 með aðstoð dr. Urbancic, eftir þriggja ára nám í Kaupmannahöfn hjá frú Dóru Sigurðsson. Hún var áður kunn fyrir söng sinn í Jóhannesarpassíunni eftir Bach o. fl. hlutverk hér í Reykjavík. Söng smekklega.
Þuríður Pálsdóttir óperusöngkona. Hún er fædd í Reykjavík 1927, dóttir Páls Ísólfssonar, tónskálds, og fyrri konu hans Kristínar Norðmann, en hún er systir Jóns Norðmanns píanóleikara (sjá bls. 210) og Óskars stórkaupmanns (sjá bls.208), sem hér var áður kunnur fyrir söng sinn. Frú Þuríður lærði söng á Ítalíu lengst af hjá hinni frægu söngkonu Pagliughi. Námið tók hún ekki í einum áfanga, heldur þremur, það er að segja, hún hefur þrisvar sinnum farið til Ítalíu til söngnáms. Hún hefur sungið utanlands og innan, á hljómleikum, í útvarp og í óperum. Hún hefur farið með einsöngshlutverkin (sópran) í Requiem eftir Mozart (1942) og Jóhannesarpassíunni eftir Bach (1949), Stabat mater eftir Rossini og Davíði konungi eftir Honegger. Helztu óperuhlutverk hennar eru: Gilda í Rigoletto eftir Verdi, en þetta hlutverk fór hún með í Bergamo á Ítalíu og kom hún þá fyrst fram á óperusviði, Moniku í Miðlinum eftir Menotti, Nedda í Pagliacci eftir Leancovallo, Musett í La Boheme eftir Puccini, og Panima í Töfraflautunni eftir Mozart. Ennfremur Michaela í Carmen eftir Bizet og Leonora í Traviata eftir Verdi, en tvær síðasttöldu óperurnar voru þá sungnar í hljómleikasal, en ekki leiknar.
Óperusöngur hennar tilheyrir allur næsta tímabili. Frú Þuríður hefur oft komi fram sem einsöngvari fyrir utan það, sem að framan er talið, t. d. með Útvarpskórnum, á Háskólatónleikum og oftar.
Frú Þuríður hefur háa sópranrödd, fagra og bjarta, og söngtækni svo mikla, að henni lætur vel koleratúrsöngur. Henni er létt um að syngja, eins og það sé henni meðfætt.
Irma Weile Barkany. Hún söng í Gamla Bíói í maí 1958 með aðstoð Carls Billich. Danskt og ungverskt blóð rann í æðum hennar, en bernzkuárin ól hún á Italíu og námsárin í Berlín. Hún lagði fyrst stund á píanóleik, en lagði síðan aðaláherzlu á sönginn. Hún bauð áheyrendum sínum mikið og fjölbreytt prógram og sýndi því að mörgu leyti ágæt skil. Lögin voru eftir Schubert og Brahms og 16 þjóðlög á ýmsum tungumálum. Þar kenndi margra grasa. Þarna voru ólíkar stíltegundir, eldfjörug ungversk lög og önnur áhrifamikil lög. Söngkonan kunni skil á þessum mörgu ólíku stíltegundum, var skapmikil og stundum nokkuð mikilfengleg, en skaut stundum yfir markið. Hún sýndi músíkalska hæfileika og menntun.
Ungfrúin giftist síðar skáldinu Ásmundi Jónssyni frá Skúfstöðum, sem lézt fyrir allmörgum árum. Hún bjó í Reykjavík og andaðist í september 1969.
Inga Hagen Skagfield. Þýzk óperusöngkona, gift Sigurði Skagfield söngvara. Hjónin sungu í Gamla Bíó í febrúar 1949 óperuaríur og önnur lög, þar á meðal íslenzk lög. Hún er ein af vinsælustu og kunnustu óperusöngkonum í Norður- og Vestur Þýzkalandi og er frábær söngkona.
Else Brems. Hjónin Else Brems (f. 1908) og Stefán Íslandi sungu nokkrum sinnum við mikla aðsókn í Gamla Bíó í júnímánuði 1946 með aðstoð Fritz Weisshappel. Frúin er fræg söngkona á Norðurlöndum og hefur verið fastráðin við konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn síðan 1931, en áður hafði hún vakið athygli á sér fyrir söng sinn sem Carmen í samnefndri óperu árið 1930. Hún er mezzo-sópran og röddin er mikil og fögur, og nær yfir mikið raddsvið. Á þessum konsertum sungu hjónin til skiptis, fyrst gömul klassisk lög, þar næst ljóðræn lög eftir íslenska og skandinavíska höfunda, síðan óperulög og loks saman óperulag. Hún er frábær söngkona og hefur sungið sem gestur víða utan Danmerkur, í Vínarborg, Budapest, Prag, Varsjá, Stokkhólmi og í Covent Garden í London. Hún var sæmd titlinum konungleg hirðsöngkona 1946.
Aulikki Rautawaara. Hún söng þrisvar sinnum í júní 1950 í Austurbæjarbíó með undirleik Jussi Jalas (píanó) sem er tengdasonur Sibeliusar og frægur hljómsveitarstjóri. Frúin hefur fagra sópranrödd og söng mörg finnsk lög, m.a. eftir Sibelius. Rautawaara er mesta og frægasta söngkona Finnlands og er stórbrotinn listamaður á heimsmælikvarða, sérstaklega rómuð fyrir andríka og hárfína túlkun á lögunum.
Rautawaara var ráðin að finnsku óperunni í Helsingfors 1932-34, Glyndbourne-óperunni í Englandi 1934-39, og hefur sungið sem gestur í Vínarborg, Bruxelles og víðar, ennfremur á tónlistarhátíðum í Salzburg (1937) og Edinborg (1949). Söngur hennar er allkunnur af hljómplötum. Auk þess hefur hún sungið í kvikmyndum, bæði í Berlin og London.
Tii Miemla. Finnsk söngkona, sem söng í Gamla Bíó nokkrum sinnum í marz 1950 með undirleik eiginmanns síns, píanóleikarans Peutti Kostimes. Hann lék og einleik á hljómleikunum. Hún er ágæt söngkona og hann er kultiveraður píanóisti. Þessi finnsku listahjón vöktu hrifningu og fengu góða aðsókn. |