Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
18.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950 – Kórsöngur

Karlakórar
Á þessu tímabili verður hljóðfæralistin stöðugt stærri þáttur í tónlistarlífinu. Í konsertsölunum heyrist píanóleikur, fiðluleikur, strokkvartettar og allskonar samleikur hljóðfæra (kammermúsík) og loks sinfónísk hljómsveit. Einsöngur er tíður og blandaður kórsöngur gegnir miklu hlutverki við flutning á óratóríum og öðrum söngverkum. Samsöngur karlakóra er nú hlutfallslega minni þáttur í sönglífinu en áður, miðað við fjölda konsertanna allt árið. Karlakórarnir í Reykjavík eru þessir: Karlakórinn Fóstbræður, Karlakór Reykjavíkur, Karlakór Iðnaðarmanna og Kátir félagar. Ennfremur var til Karlakór Alþýðu og Karlakór lögreglunnar, en minna kvað að þeim. Tveir fyrstnefndu kórarnir syngja árlega, en hinir sjaldnar.

Því var lengi trúað, að íslenzkur karlakórsöngur væri sneyddur listrænum tilþrifum, enda söngmennirnir ólærðir í listinni. Þetta á sjálfsagt við um marga íslenzka karlakóra, en þeir eru til í hverjum kaupstað og víða í sveitum landsins. En þetta á ekki við um beztu Reykjavíkurkórana, Fóstbræður og Karlakór Reykjavíkur, sem sungið hafa erlendis og fengið mjög lofsamleg blaðaummæli. Þegar karlakór K.F.U.M. (nú Fóstbræður) söng í Bergen um vorið 1926, sagði Bergens Aftenblad: „Oss er þetta undrunarefni. Vér vissum að vísu, að kórsöngur er iðkaður á Íslandi, en það kom oss á óvart, að hann væri kominn á svo hátt stig, sem þessi söngflokkur ber vitni um.“ En þetta er útlendingum ekki lengur undrunarefni, að minnsta kosti ekki á Norðurlöndum, þar sem íslenzkir söngflokkar, bæði blandaðir kórar og karlakórar, hafa sungið á norrænum söngmótum og staðið sig með prýði.

Því hefur verið haldið fram, að karlakórlög séu yfirleitt veigaminni en tónlist í öðrum greinum listarinnar. Að vísu er hér sjaldan um stórform tónlistarinnar að ræða, en formið eitt sker ekki úr um músíkgildið, heldur gæðin. Gott karlakórlag er betri tónlist en léleg sónata. Karlakórlög eru upp og ofan, alveg eins og einsönglög og öll önnur lög, mörg sérkennileg og falleg. Fræg tónskáld hafa lagt rækt við þessa grein listarinnar, eins og Grieg, Bruckner, Schubert, Schumann o. fl. og var sá síðastnefndi um skeið söngstjóri karlakórs í Dresden. Frægasta verk gamla Hartmanns er „Völuspá“ stórt í sniðum, samið fyrir karlakór, og er talið hátindurinn á list hans.

Karlakórinn Fóstbræður. Kórinn er stofnaður 1916 innan K.F.U.M. og var lengi kenndur við þann félagsskap. Fyrstu 10 árin var þetta eini starfandi karlakórinn í höfuðstaðnum, því að karlakórinn „17.júní“ leystist upp um það bil, sem þessi kór varð til, og í dag er þetta elsti starfandi karlakór í landinu. Kórinn söng í fyrsta sinn opinberlega hinn 25.marz 1917 í Bárunni. Síðan hefur kórinn sungið árlega við hinn bezta orðstír og þóttu samsöngvar kórsins jafnan viðburður í sönglífi bæjarins. Á árunum 1917-25 var sungið í Bárunni eða Bárubúð, eins og húsið var ýmist kallað, en frá 1925-28 í Nýja Bíó, en síðan í Gamla Bíó. Margir góðir söngmenn völdust í kórinn, og meðal þeirra ber fyrst og fremst að telja Pétur Halldórsson, Símon Þórðarson og Óskar Norðmann, sem allir voru á sínum tíma aðal einsöngvarar kórsins, Síðar sungu þeir Einar B. Sigurðsson og Garðar Þorsteinsson einsöng með kórnum. Auk þeirra sem hér hafa verið taldir, hafa þeir Jón Guðmundsson, Sigurður Waage, Kristján Kristjánsson, Pétur Jónsson, Daníel Þorkelsson, Arnór Halldórsson og Haraldur Hannesson aðstoðað með einsöng og síðast hefur Kristinn Hallsson óperusöngvari verið um langt skeið aðaleinsöngvari kórsins. Árið 1937 hélt kórinn samsöng, þar sem Sigurd Björling,óperusöngvari frá Stokkhólmi, var einsöngvari kórsins.

Söngför kórsins til Noregs og Færeyja vorið 1926 er merkisviðburður í sögu hans. Hún var óslitin sigurför og blaðadómar alveg einróma viðurkenning á frábærum söng og söngstjórn kórsins. Eitt blaðið í Bergen kemst þannig að orði: „Stjórnandinn Jón Halldórsson lýsti ákveðinni sannfæringu um það, hvernig syngja bar, og fylgdi henni eftir með slíkum aga, sem væri það hjá prússneskum keisaralífverði við hersýningu. Þannig á kórsöngur að vera. Margar sálir, þaulæfðir söngvarar og einn vilji.“

Annar merkisviðburður í sögu kórsins var það, að karlakórinn „Bel canto“ í Kaupmannahöfn bauð honum í tilefni af 25 ára afmæli sínu, til þátttöku í norrænu söngmóti í Kaupmannahöfn vorið 1931. Þetta söngmót fór fram með mestu prýði og voru þátttakendur helztu karlakórarnir á Norðurlöndum.

Enn fór kórinn í söngför til Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands vorið 1946, en að þessu sinni var hann ekki einn um sönginn, heldur var utanfararkórinn skipaður úrvalskröftum úr „Fóstbræðrum“ í Reykjavík og „Geysi“ á Akureyri, og var mestur hlutinn úr fyrrnefnda kórnum, 29 söngmenn af 38. Söngstjórar voru þeir Jón Halldórsson og Ingimundur Árnason.

Árið 1954 fóru „Fóstbræður“ í söngför til Þýzkalands, Hollands, Belgíu, Frakklands,, Englands og Skotlands. Þá var Jón Halldórsson ekki lengur söngstjóri kórsins.

Þá er ótalin söngför kórsins til Vestur- og Norðurlandsins árið 1935.

Það voru einmitt „Fóstbræður“ sem lögðu til karlmannaraddirnar í blandaða kórinn á Alþingishátíðinni 1930 og átti þannig sinn þátt í að setja virðulegan svip á hátíðina. Kórinn hefur ennfremur aðstoðað við uppfærslur á óratóríum og óperum; fyrsta óperan af þremur var Rigoletto eftir Verdi, en hún er fyrsta óperan, sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu 1951. En meginþátturinn eru hinu árlegu samsöngvar kórsins í höfuðstaðnum.

Árið 1936 breytti kórinn um nafn og hét úr því Karlakórinn Fóstbræður (áður Karlakór K.F.U.M). Söngstjórar hafa verið: Jón Halldórsson (1916-1950) , Jón Þórarinsson (1950-1954) og Ragnar Björnsson (frá 1954).

Jón Halldórsson söngstjóri er fæddur 2. nóv. 1889 í Reykjavík, sonur Halldórs Jónssonar, bankagjaldkera, og konu hans Kristjönu, dóttur Péturs Guðjohnsen organista. Jón söngstjóri og Emil Thoroddsen tónskáld eru systrasynir. Í greininni um Emil Thoroddsen hér að framan er minnst á það, að niðjar Péturs Guðjohnsens sækja einnig músíkgáfuna í Knudsenættina, en Guðrún kona Péturs, var dóttir Lars Michaels Knudsen, kaupmanns í Reykjavík (sjá þar).

Jón Halldórsson var söngstjóri „Fóstbræðra“ frá upphafi og í samfleytt 34 ár. Hann hafði úthald og þann eiginleika, að geta haldið við áhuganum, svo kórinn lognaðist ekki útaf, en þennan eiginleika hafa ekki allir, þótt þeir annars séu búnir góðum söngstjórnarhæfileikum. Jón Halldórsson var vinur söngmanna sinna, undi sér vel í þeirra hóp og var vel virtur af þeim. Hann var og búinn þeim kostum, sem prýða góðan söngstjóra, meðfædda músíkgáfu, nákvæma hljóðfallskennd, öryggi og smekkvísi í efnismeðferð og vandvirknin lýsti sér í hverju lagi. Þau lög, sem voru sérstaklega eftir höfði hans og hjarta, sungust þannig, að á þeim var hvorki blettur né hrukka og var söngurinn meðgóðum listrænum tilþrifum.

Tónlistarstörfin vann hann í tómstundum, en borgarleg störf hans voru þessi: fyrsti bankaritari í Landsbankanum, síðan landsféhirðir (1917-32) og eftir það skrifstofustjóri Landsbankans, þar til hann lét af störfum vegna aldurs.

Karlakórinn „Fóstbræður“ söng í fyrsta sinn undir stjórn Jóns Þórarinssonar tónskálds í Gamla Bíó í desember 1950, en hann tók við söngstjórn af Jóni Halldórssyni, eins og áður er sagt.

Carl Billich píanóleikari hefur verið undirleikari kórsins frá 1947, en þar áður Gunnar Möller og Anna Pjéturss.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa