Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
15.11.2010
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950 – Kórsöngur

Blandaðir kórar
Karlakórar starfa á þessu tímabili með sama krafti og áður og nýir koma fram. Þeir eiga miklum vinsældum að fagna og fá góða aðsókn. En blandaður kórsöngur verður, þegar líður á tímabilið, stöðugt veigameiri þáttur í sönglífinu, sérstaklega við flutning á stórverkum meistaranna, eins og óratóríum, passíónum og öðrum slíkum söngverkum, sem nú eru flutt í heild, en áður voru einungis sungin úr þeim einstök lög.

Lengi voru blandaðir kórar í Reykjavík ekki fastmótaður félagsskapur. Þeir voru myndaðir í hvert sinn, þegar á þeim þurfti að halda, stundum í tilefni af konungskomu, að ógleymdri Alþingishátíðinni 1930, en oftast í tilefni af kirkjutónleikum, sem dómorganistinn eða annar efndi til. Þessir blönduðu kórar báru ekkert nafn, fyrr en Sigfús Einarsson gefur þeim kór, sem hann hann hafði stýrt um skeið, nafnið „Heimir“. Kórinn söng í fyrsta sinn undir því nafni í Dómkirkjunni 4. des. 1936. Kórinn söng a capella, mest gömul kirkjulög eftir gamla meistara, Bach, Schütz, Palestrina og einnig eftir 19. aldar tónskáld, eins og Brahms. Kórinn söng ekki eftir það og lagðist niður.

Þegar líður á tímabilið eru hér starfandi nokkrir félagsbundnir blandaðir kórar: Tónlistarfélagskórinn, Söngfélagið Harpa, Samkór Reykjavíkur og Útvarpskórinn, auk Dómkórsins og annara kirkjukóra. Tónlistarfélagskórinn var fyrst nefndur Samkór Tónlistarfélagsins og hann var uppistaðan í þeim blandaða kór, sem söng í óratóríuverkum og öðrum stórum söngverkum, sem settu svo mjög svip á sönglífið í bænum á sínum tíma.

Hér á eftir verður talað um helztu tónleika með blönduðum kórsöng.

Dr. Páll Ísólfsson stjórnaði eftirtöldum verkum: „Sköpunin“ eftir Haydn (1940), „Reqiuem“ eftir Cherubini (1941) og Alþingishátíðarkantötunni 1930 eftir sjálfan hann, sem flutt var í Fríkirkjunni 12 okt. 1943 í tilefni af fimmtugsafmæli hans.

Dómkórinn söng undir hans stjórn í Dómkirkjunni 6. maí 1950 íslenzk lög eftir Hallgrím Helgason, Jón Leifs, Björgvin Guðmundsson, Árna Björnsson, Karl O. Runólfsson og Pál Ísólfsson.

Kórinn söng aftur á sama stað 6. júní 1950 sálmalög í vönduðum raddsetningum gamalla meistara. Þuríður Pálsdóttir, Kristinn Hallsson sungu einsöng og Páll lék orgelsóló. Lanzky Otto lék einleik á waldhorn.

Dr. Róbert Abraham Ottósson stjórnaði „Árstíðunum“ eftir Haydn í Gamla Bíó í marzmánuði 1943. Þetta voru reyndar ekki nema þættir úr óratóríunni en textinn var í íslenzkri þýðingu Jakobs Jóhanns Smára. Hljómsveit Reykjavíkur og Söngfélagið Harpa fluttu verkið, en einsöngvarar voru Guðrún Ágústsdóttir, Guðmundur Jónsson og Daníel Þorkelsson. Söngfélagið Harpa var um 30 manna flokkur.

Róbert Abraham Ottósson var söngstjóri Útvarpskórsins. Kórinn var á vegum Ríkisútvarpsins og ætlað það hlutverk að syngja í útvarpið og það gerði hann með prýði. Söngstjórinn sýndi íslenzkri tónlist þá ræktarsemi, að láta kórinn syngja lög eftir eldri og yngri íslenzk tónskáld, þar á meðal ný lög, sem aldrei höfðu heyrst áður. Útvarpskórinn söng í útvarpssalnum, en gerði þá undantekningu frá reglunni tvisvar, að syngja úti í bæ, og söng þá í Dómkirkjunni. Í fyrra sinnið var konsertinn 6. febr. 1949 og þá sungin lög eftir Sweelinck, Brahms, Missa brevis í B-dúr eftir Haydn og Kyrie úr Grallaranum, sem er einraddaður messusöngur. Í síðara skiptið söng kórinn þar 28. febr. 1950.

Róbert Abraham Ottósson
Robert Abraham Ottósson
Dr. Robert Abraham Ottósson er fæddur 17. maí 1912 í Berlín. Faðir hans var læknir og tónfræðingur. Hann varð stúdent 1931 og stundaði síðan nám við háskólann og músíkháskólann í Berlín og hljómsveitarstjórn hjá Hermann í París. Til Íslands fluttist hann árið 1935, en það ár stjórnaði hann DUTS hljómsveitinni í Kaupmannahöfn. Hann var á Akureyri 1935-40 við tónlistarkennslu. Síðan fluttist hann til Reykjavíkur. Árið 1947 varð hann kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík, og árin 1957-61 var hann skólastjóri Barnamúsíkskólans. Hann hefur í mörg ár kennt guðfræðinemum tónsöng og var skipaður dócent 1956. Þegar Sigurður Birkis féll frá varð hann eftirmaður hans í stöðu söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar árið 1961.

Árið 1959 varði Róbert Abraham Ottósson ritgerð við heimspekideild Háskóla Íslands fjallaði hún um Þorlákstíðir. Doktorsritgerðin er prentuð í Kaupmannahöfn 1959.

Hér hefur verið minnst á margvísleg störf hans, en kunnastur er hann í tónlistarlífinu sem söngstjóri og hljómsveitarstjóri. Hann hefur stjórnað mörgum kórum, Karlakór Iðnaðarmanna, svo og blönduðum kórum: Söngfélaginu „Hörpu“, sem hann fór með í söngför til Danmerkur árið 1946, Samkór Reykjavíkur sem hann fór með í söngför til Norðurlanda árið 1954, Útvarpskórnum, Þjóðleikhúskórnum og Söngsveitinni Fílharmoníu. Hann er snjall söngstjóri. Hann er einnig góður hljómsveitarstjóri og hefur margsinnis stjórnað Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þess skal getið, að hann stjórnaði Hljómsveit íslenzkra hljóðfæraleikara þann stutta tíma, sem hún starfaði. Árið 1956-57 stjórnaði hann sem gestur Borgarhljómsveitinni í Berlín.

Af stórum kórverkum, sem hann hefur stjórnað á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands skal nefna: „Messías“ eftir Händel (1963), „Ein Deutsches Requiem“ eftir Brahms (1961), „Requiem“ eftir Mozart (1964). Ennfremur skal nefna Sinfóníu nr. 9 í d-moll eftir Beethoven (1966 ), sem þá var flutt í fyrsta sinn hér á landi, en í lokakaflanum er kórsöngur. Söngfélagið Fílharmonía söng í Messías, en hann er fastur söngstjóri kórsins.

Dr. Róbert Abraham Ottósson er mikilhæfur tónlistarmaður, djarfur og stórhuga. Það hefur kveðið mest af honum í flutningi stórra söngverka síðan dr, Urbancic féll frá.

Þá verður hér rætt nokkuð nánar um söngstjórn dr. Victors Urbancic. Í greininni um hann hér að framan er minnst á óratóríur og önnur stór söngverk, sem hann hefur stjórnað. Ennfremur eru þar taldar þær óperur og óperettur, þar sem hann heftir haft á hendi söngstjórn og hljómsveitarstjórn. Hér verður sú upptalning ekki endurtekin og vísast til greinarinnar.

Dr. Urbancic var aldrei söngstjóri karlakóra, eins og collega hans dr. Róbert Abraham, en afskipti hans af blönduðum kórsöng voru mikil. Sjálfur var hann fastur söngstjóri Tónlistarfélagskórsins, auk þess stjórnaði hann öðrum kórum, þegar svo bar undir, eins og Söngfélaginu „Hörpu“, sem flutti undir hans stjórn kantötuna „Vökumaður, hvað líður nóttunni“ eftir Karl O. Runólfsson árið 1948.

„Kvöldsöngur í Landakotskirkju“ hétu tónleikar, sem dr. Urbancic stjórnaði árið 1941, en hann var kaþólskur og söngstjóri og organisti kirkjunnar. Um vorið var sungin þar „Stabat mater“ eftir Pergolesi fyrir kvennaraddir, strokhljómsveit og orgel. Ennfremur söng þá kvennakór þrjár mótettur eftir gömul kaþólsk kirkjutónskáld, Jakobus Gallus (1550-1591), Vittoria (1540-1613) og Palestrina (1528-1594).

Um haustið var aftur haldinn kvöldsöngur í kirkjunni, þá söng blandaður kór 113. sálm Davíðs eftir Händel. Ennfremur voru þá sungnir kaflar úr Hámessu (h-moll) Bachs. Fleiri lög voru sungin.

Eins og áður er sagt var dr. Urbancic fastur söngstjóri Tónlistarfélagskórsins. Kórinn var áður nefndur Samkór Tónlistarfélagsins, blandaður kór, sem söng með undirleik Hljómsveitar Reykjavíkur við uppfærslur á þeim kirkjulegum stórverkum, sem áður hefur verið talað um. Kórinn hélt stundum sjálfstæðar söngskemmtanir og söng þá oft smálög eftir íslenzka og erlenda höfunda, án undirleiks hljóðfæra. Um sumarið 1948 tók kórinn þátt í söngmóti í Kaupmannahöfn, þar sem hann fékk mjög lofsamlega blaðadóma. Kórinn söng í fyrsta sinn eftir heimkomuna í Austurbæjarbíó 25. nóvember sama ár. Sungin voru 17 lög, öll eftir íslenzka höfunda. Dr. Páll Ísólfsson ritaði um sönginn í Morgunblaðið og komst þannig að orði: „Sjaldan, ef nokkru sinni, hefur heyrst hér jafn góður söngur blandaðra radda“.

Áður hefur verið minnst á Söngfélagið „Hörpu“. Það var einmitt þessi blandaði kór, sem söng í „Árstíðunum“ eftir Haydn árið 1943 undir stjórn dr. Róberts Abrahams Ottóssonar. Hann fór með kórinn í söngför til Danmerkur árið 1946 og fékk kórinn góða blaðadóma. Dr. Urbancic stjórnaði kórnum við uppfærslu á áðurnefndri kantötu Karls O. Runólfssonar árið 1948. Árið 1950 er Jan Moravek orðinn söngstjóri og kórinn syngur það ár undir hans stjórn bæði í Gamla Bíó og Þjóðleikhúsinu. Sungin eru íslenzk og erlend lög. Jan Moravek er fæddur í Vínarborg og er af tékkneskum ættum. Hann er kunnur maður í tónlistarlífi Reykjavíkur.

Samkór Reykjavíkur var stofnaður árið 1943 og var Jóhann Tryggvason fyrsti söngstjóri kórsins. Kórinn er þannig til orðinn, að Kvennakórinn „Svölur“ og karlakórinn „Ernir“ runnu saman í blandaðan kór, sem gefið var nafnið Samkór Reykjavíkur. Í kórnum eru um 60 manns. Fyrstu söngskemmtun sína hélt kórinn í Gamla Bíó í janúar 1944. Árið eftir syngur hann aftur á sama stað og eru það kveðjutónleikar söngstjórans, Jóhanns Tryggvasonar, sem var á förum til Englands til framhaldsnáms í tónlist. Í marzmánuði 1953 syngur kórinn á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í Þjóðleikhúsinu „Örlagaljóð“ eftir Brahms undir stjórn Róberts Abrahams Ottóssonar.

Jóhann Tryggvason hefur síðan verið búsettur í London en hefur komið hingað til að stjórna Sinfóníuhljómsveitinni og hefur þá Þórunn dóttir hans leikið píanókonserta eftir Beethoven (1953) og Schumann (1955) með undirleik hljómsveitarinnar.

Utanbæjarkórar heimsóttu höfuðstaðinn á þessu tímabili. Sunnukórinn frá Ísafirði söng nokkrum sinnum í Gamla Bíó í september 1945 undir stjórn Jóns Tómassonar tónskálds. Efnisskráin var fjölbreytt, íslenzk og erlend lög. Kórinn söng þá einnig í Dómkirkjunni andleg lög, þar á meðal eftir vestfirsk tónskáld.

Vestmannakórinn, blandaður kór frá Vestmannaeyjum (44 manns) söng undir stjórn Brynjólfs Sigfússonar organista í Gamla Bíó í júní 1944. Það hefur verið einskonar álög á blönduðum kórum, að fæstir hafa átt sér langan aldur. Undantekningar hafa þó verið og er Vestmannakórinn þar á meðal, en hann getur rakið feril sinn alla leið aftur til aldarafmælis Jóns Sigurðssonar árið 1911, þótt ekki hafi hann verið félagsbundinn lengur en frá árinu 1925. Allan tímann hefur kórinn notið leiðsagnar sama mannsins, Brynjólfs Sigfússonar organista, sem verið hefur lífið og sálin í sönglífinu í Vestmannaeyjum.

Kantötukór Akureyrar kom tvisvar til Reykjavíkur á þessu tímabili til að kynna Reykvíkingum tvö stórverk eftir söngstjórann, Björgvin Guðmundsson, í fyrra skiptið um vorið 1937 og flutti þá söngdrápuna „Ísland þúsund ár“ við hátíðarljóð Davíðs Stefánssonar, en seinna skiptið um sumarið 1946 og flutti þá óratóríuna „Örlagagátan“ við kvæðaflokk Stephans G Stephanssonar. Höfundurinn stjórnaði söngnum í bæði skiptin.

Þriðja stóra söngverkið eftir Björgvin, óratórían „Friður á jörðu“ við kvæðaflokk Guðmundar Guðmundssonar, var flutt í Fríkirkjunni um vorið 1945. Tónlistarfélagskórinn söng og Hljómsveit Reykjavíkur, ásamt orgelinu, annaðist undirleikinn. Dr.Victor Urbancic var stjórnandinn.

Björgvin Guðmundsson hefur sérstöðu meðal íslenzkra tónskálda að því leyti, að hann hefur tekið ástfóstri við órátóríuformið. Hann er hið eiginlega órátóríutónskáld þjóðarinnar og fyrirmyndin eru slík verk barokktímabilsins, einkum Händels. Eðlisgáfa Björgvins vísaði honum snemma þessa leið og eru eftir hann nokkur verk á þessu sviði og ennfremur kantötur, en þær eru að formi til náskyldar. Hér er um ræða stórform tónlistarinnar. Stíll hans, eins og hann birtist í „Friður á jörðu“, er byggður á arfleifð hinna gömlu meistara, þar sem þungamiðjan liggur í hinum stóru kórköflum, bæði hvað snertir ytra form og anda verksins. Þessir kórkaflar eru ýmist byggðir í fúgustíl eða eru í ljóðrænum sálmalagastíl. Björgvin hefur kórstílinn algjörlega á valdi sínu og nær miklum áhrifum, þegar honum tekst upp. Aftur á móti myndast lægðir í verkinu, þegar eingsöngskaflarnir taka við.

Barnakórar
Barnakórar geta verið skemmtilegir, þegar þeir eru þjálfaðir af færum söngstjórum. Erlendis eru til frægir drengjakórar, eins og Thomanerkórinn í Leipzig, Dómkórinn í Berlín, Wiener-Knabenkór o.fl. Hér í Reykjavík söng „Drengjakór Reykjavíkur“ undir stjórn Jóns Ísleifssonar í Nýja Bíó um vorið 1937. Barnakórinn „Smávinir“ söng í júlí 1944 undir stjórn Helga Þorlákssonar skólastjóra. Kórinn er frá Vestmannaeyjum. „Barnakór Borgarness“ söng í Gamla Bíó 1945 undir stjórn Björgvins Jörgensen kennara. „Barnakórinn Sólskinsdeildin“ söng undir stjórn Guðjóns Bjarnasonar hér árið 1944. Þessi kór er úr Reykjavík. Söngurinn var öllum þessum kórum til sóma.

Norskur drengjakór „Stjernegutterne“ söng nokkrum sinnum í Gamla Bíó í júlí 1934. Allir drengirnir í kórnum voru innan fermingaraldurs. Kórinn söng einnig í Fríkirkjunni. Sungin voru eingöngu norsk lög og vakti söngurinn hrifningu. Söngstjórinn var Johannes Berg-Hansen.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa