| Mynd vantar |
IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950
Lúðrasveitir Áður hefur stuttlega verið minnst á sögu lúðrasveita í Reykjavík og verður nú sagan sögð nokkru nánar.
Helgi Helgason tónskáld var frumkvöðull að hornaleik hér á landi og stofnaði Lúðrafélag Reykjavíkur (nefndist þá Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur) árið 1876, sem starfaði að mestu óslitið um 40 ára skeið. Næsti félagsskapur á þessu sviði var „Harpa“ sem stofnuð var 16. maí 1910, og spilaði í fyrsta sinn opinberlega við vígslu sundskálans í Skerjafirði árið eftir. „Sumargjöfin“ var stofnuð fyrsta sumardag 1912 innan K. F. U. M. og starfaði þetta lúðrafélag nokkur ár. Enn eitt lúðrafélag var stofnað 29. maí 1915 og var það nefnt „Gígja“.
Aðalhvatamaðurinn að stofnun síðast taldra þriggja lúðrafélaganna var Hallgrímur Þorsteinsson organisti sem einnig var leiðbeinandi þeirra allra og stjórnandi fyrstu árin. Hann var hinn mesti áhugamaður um tónlist og starfaði af ósérplægni og áhuga í þágu þessara félaga og söngkóra, sem hann kom á fót.
Árið 1922 voru tvö af þessum félögum starfandi, „Harpa“ og „Gígja“. Þau runnu saman í eitt félag, „Lúðrasveit Reykjavíkur“, sem var stofnuð 7. júlí 1922. Þá var ráðinn þýzkur maður, Otto Bötcher að nafni, til að kenna og stjórna lúðrasveitinni. Hann var hér í tæp tvö ár, en þá tók Páll Ísólfsson við af honum, ráðinn frá 1, apríl 1924 og gegndi því starfi óslitið í 12 ár. Franz Mixa og Karl O. Runólfsson stjórnuðu lúðrasveitinni stuttan tíma, en þá tók Albert Klahn við árið 1938. Hann var réttur maður á réttum stað og tók lúðrasveitin miklum framförum undir hans stjórn. Þá tók Páll Pampichler Pálsson við; ráðinn frá 1. okt. 1949, og hefur stjórnað lúðrasveitinni síðan.
Lúðrafélögin höfðu frá fyrstu tíð verið á hrakhólum með húsnæði til æfinga . „Harpa“ hafði hafið undirbúning að húsbyggingu í þessu skyni. Lúðrasveit Reykjavíkur hélt þessu máli áfram af miklu kappi, og með stuðningi bæjarstjórnarinnar, og sérstaklega þáverandi borgarstjóra Knud Zimsen, sem á margvíslegan hátt studdi málið með ráðum og dáð, var Hljómskálinn reistur í garðinum við Tjörnina, sem nú dregur nafn sitt af Hljómskálanum. (Hljómskálagarðurinn). Hann var fullbyggður síðara hluta ársins 1923 og kostaði tæpar 27 þús. krónur.
Lúðrasveitin Svanur var stofnuð 16. nóvember 1930. Hallgrímur Þorsteinsson stjórnaði sveitinni fyrstu árin. Næstur tók Gunnar Sigurgeirsson píanóleikari við, þá Karl O. Runólfsson tónskáld, sem stjórnaði henni í 21 ár. Er Karl hætti, tók Jón G. Þórarinsson organisti við. Aðrir stjórnendur hafa verið um skemmri tíma: Árni Björnsson tónskáld, Jóhann Tryggvason tónlistarmaður, Wilhelm Lanzky Otto hornisti, Jan Moravek hljómsveitarstjóri, og frá því í október 1964 Jón Sigurðsson trompetleikari, en undir hans stjórn hefur hljómsveitin tekið algjörum stakkaskiptum.
Jón Sigurðsson er fæddur 16. marz 1927 að Ærlækjarseli í Axarfirði, N.-Þingeyjarsýslu. Hann fluttist til Reykjavíkur 1949 og gekk þá í Lúðrasveit Reykjavíkur. Stundaði nám í trompetleik í London. Skömmu eftir heimkomuna réðst hann sem fyrsti trompetleikari til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hefur leikið þar síðan við góðan orðstír, einnig sem einleikari. Lúðrasveitin Svanur tók miklum framförum undir hans handleiðslu og varð brátt skarpur keppinautur Lúðrasveitar Reykjavíkur um fyrsta sætið.
Lúðrasveitirnar hafa leikið fyrir bæjarbúa á Austurvelli og annarsstaðar, og óteljandi eru þau hátíðarhöld og íþróttasýningar, sem þær hafa aðstoðað við. Ennfremur hafa þær haldið konserta í hljómleikasölum borgarinnar.
Albert Klahn, sem stjórnaði Lúðrasveit Reykjavíkur um 12 ára skeið (1938-49) var þýzkur maður og vel fær í sinni grein. Hann var vinsæll og voru sérstakir tónleikar haldnir honum til heiðurs í Þjóðleikhúsinu 31, maí 1953 vegna 60 ára tónleikastarfs hans. Þá lék Sinfóníuhljómsveitin undir hans stjórn óperuforleiki eftir Wagner og Weber, Rhapsodíu nr. 2 eftir Franz Liszt og píanókonsert nr. 2, op.18, í c-moll, eftir Rachmaninov, en rússneska konan Tatana Kravtenkó lék píanóhlutverkið. Albert Klahn missti fyrri konu sína,sem var Þýzk, og kvæntist íslenzkri konu. Klahn andaðist fyrir nokkrum árum.
Páll Pampichler Pálsson, sem stjórnað hefur Lúðrasveit Reykjavíkur síðan 1. okt. 1949, er fæddur í Graz í Austurríki árið 1928 og stundaði tónlistarnám hjá prófessor Michl og dr. Franz Mixa í Graz. Kennari hans í trompetleik var próf. Brügger. Hann kom hingað til lands 1949, þá 21 árs að aldri, og tók við stjórn lúðrasveitarinnar, eins og fyrr segir. Hann lék í nokkur ár fyrsta trompet í Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveitinni hefur hann stjórnað á tónleikum í Reykjavík og víðsvegar um landið, ennfremur í útvarpi. Framhaldsnám stundaði hann í Hamborg 1959-1960 hjá prófessor Brückner-Rüggenberg.
Prófessorinn, sem verið hefur aðalhljómsveitarstjóri Hamborgaróperunnar og jafnframt kennari við tónlistarskólann þar í borg, er Reykvíkingum góðkunnur síðan hann stjórnaði óperunni „Carmen“ eftir Bizet í Austurbæjarbíó um vorið 1958 (konsertuppfærsla). Páll Pampichler Pálsson er tónskáld. Hann hefur meðal annars samið konsert fyrir fagott og hljómsveit, sem fluttur var í útvarp 1961, ennfremur kammermúsíkverk (kvartetta og kvintetta) og hljómsveitarverk. Hann hefur ennfremur verið söngstjóri Karlakórs Reykjavíkur nokkur undanfarin ár.
Páll Pampichler Pálsson er kvæntur íslenzkri konu og er íslenzkur ríkisborgari. Hann hefur verið vaxandi maður í íslenzku tónlistarlífi. |