| Mynd vantar |
IV Tímabilið 1930 – 1950: Tónlistarlíf í Reykjavík 1930-1950
Aðrir hljóðfæraleikarar Þá skal nefna einn mesta snilling á sitt hljóðfæri, sem hér hefur starfað, en það er waldhornistinn Wilhelm Lanzky Otto. Hann var ráðinn hingað árið 1946 sem kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík, en hafði áður leikið í hljómsveit konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn. Hann er fæddur 30. janúar 1909 í Hellerup og talinn bezti waldhornisti Dana. Hann lauk prófi úr tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn 1930, síðan orgelprófi 1931. Í tónlistarskólanum lagði hann jafnframt waldhorninu stund á píanóleik og er góður píanóisti. Í Kaupmannahöfn hélt hann sjálfstæða píanótónleika árið 1932,- og var það í fyrsta sinn sem hann kom opinberlega fram sem slíkur.
Hér í Reykjavík.dvaldi Lanzky Otto árin 1948-51 og kom þá oft fram sem einleikari á waldhornið, og verður það ekki rakið hér, en fyrstu tónleikar hans voru haldnir í Gamla Bíó í febrúar 1946, þá kom hann bæði fram sem waldhornisti og píanóisti. Undirleik undir waldhorninu annaðist dr. Victor Urbancic.
Eftir að Lanzky Otto fór héðan var hann ráðinn sóló-hornleikari í sinfóníuhljómsveitinni í Gautaborg, og síðar sóló-hornleikari í sinfóníuhljómsveitinni í Stokkhólmi og jafnframt kennari við tónlistarskólann þar í borg.
Í lok tímabilsins eru tveir klarínettleikarar komnir fram. Annar er Egill Jónsson, sem lært hafði í Englandi.Hann er góður listamaður og kemur við og við fram sem einleikari, allt frá 1948, og síðar með Sínfóníuhljómsveitinni. Hinn er Vilhjálmur Guðjónsson. Hann lærði í Ameríku,og leikur í Sínfóníuhljómsveitinni. Hann lék með hljómsveitinni árið 1948 einleik í kvintett í a -dúr eftir Mozart og leysti það hlutverk vel af hendi.
Gítarsnillingurinn Nils Larsen, sem er sænskur, hélt nokkra tónleika í Tjarnarbíó í nóvember 1946. Hann kom hingað á vegum Mandolínhljómsveitar Reykjavíkur. Viðfangsefnin voru eftir Bach, Mozart, Albenies o. fl. Listamaðurinn lék einnig Bellmanslög en Bellman söng ljóðin sín og lék undir á gítar. Hljóðfæri Bellmans er mitt á milli gítarins og lútunnar, og heitir Cister, en hefur síðan verið kallað „Bellmans-lúta“. Niels Larsen var snillingur og fékk góðar viðtökur. |