Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
28.01.2014
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Þórhallur Árnason
Þórhallur Árnason

III Tímabilið 1900 – 1930: Tónlistarlíf í Reykjavík 1911-1930 – Tónskáld tómabilsins

Þórhallur Árnason (f. 1891)
Þórhallur Árnason er fæddur 13. janúar 1891 í Narfakoti í Innri Njarðvík, sonur hjónanna Árna Pálssonar, barnakennara, og Sigríðar Magnúsdóttur, en þau hjónin voru bæði fædd og uppalin í Rangárvallasýslu.

Þórhallur lærði cellóleik hjá Rüdinger prófessor í Kaupmannahöfn og hjá Emil Leichsenring í Hamborg.  

Þórhallur hefur haft cellóleikinn að atvinnugrein sinni. Árum saman dvaldi hann erlendis, lengst af í Hamborg, og lék þá í hljómsveitum, bæði í kvikmyndahúsum og á opinberum skemmtistöðum. Hann kom þá stundum fram sem einleikari á félagssamkomum og kirkjutónleikum. Á þessum árum kom hann til Reykjavíkur með vini sínum Otto Stöterau píanóleikara, sem þá var ungur, en varð síðar leiðandi maður í músíklífi Hamborgar og vel þekktur píanóleikari í þýzka heiminum. Þeir héldu hér saman tónleika í Nýja Bíó um vorið 1925. Þórhallur sýndi þá, að hann var orðinn dugandi cellóleikari.

Nokkru síðar settist Þórhallur að í Reykjavík og hefur síðan verið virkur kraftur í tónlistarlífi bæjarins, í hljómsveit Ríkisútvarpsins frá 1931, í hljómsveitum, síðast í Sinfóníuhljómsveitinni og auk þess komið fram sem cellóleikari í sambandi við opinbera tónleika í marga áratugi.

Þórhallur hefur samið lög fyrir söng og hljómsveit, sem enn eru óprentuð. Lagið „Skúlaskeið“ (Grímur Thomsen), sem er tilþrifamikil ballata, hefur verið sungin opinberlega og vakið verðskuldaða athygli. 


x x x x x

Hér að framan hefur verið talað um þau tónskáld, sem komu fram á tímabilinu 1900 - 1930. Þau eru Reykjavíkurtónskáld í þeim skilningi, að þau eru búsett í bænum. Sum vinna þó aðalstarf sitt á næsta tímabili, en þau eru komin fram í tónlistarlífi bæjarins fyrir 1930, sum að vísu að litlu leyti, og eru því talin hér með.

Hinsvegar eru þjóðkunn tónskáld ekki talin hér með, eins og Björgvin Guðmundsson á Akureyri, Friðrik Bjarnason í Hafnarfirði, Ingi T. Lárusson á Norðfirði og Jónas Tómasson á Ísafirði. Tónlistarstörf þeirri eru ekki unnin í Reykjavík, enda öll búsett annarsstaðar.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa