| Mynd vantar |
III Tímabilið 1900 – 1930: Tónlistarlíf í Reykjavík 1911-1930
Nú verður rætt um seinni hluta þessa tímabils, árin 1911-30. Er mikill vöxtur í músíklífinu, þegar líður á tímabilið, og þjóðin eignast listamenn, sem gert hafa listina að ævistarfi sínu. Þó verða flestir, sem hér heima dvelja, að hafa með önnur störf sér til framdráttar. Reykjavík er í stöðugum vexti. Íbúarnir eru 18000 árið 1920 og ríflega 28000 árið 1930. Þessi fólksfjöldi tryggir góðum erlendum listamönnum góða aðsókn og hagnast þeir vel, þrátt fyrir tímafrekt og dýrt ferðalag hingað yfir hafið. Erlendu listamennirnir, sem heimsækja hina söngelsku borg á þessum árum, eru hver öðrum betri og sumir heimsfrægir snillingar. Á þá verður minnst síðar, en fyrst verður talað um íslenzku listamennina og byrjað á söngvurunum.
Söngvarar Pétur Á. Jónsson er borinn og barnfæddur Reykjavíkur og og ólst upp í Vesturbænum. Hann varð stúdent 1906. Stundaði tannlæknanám í Kaupmannahöfn 1906-11, en hætti námi. Þá var hann, nolens volens, kominn út á söngbrautina, því hann var fæddur söngvari. Síðan söng hann við fræg óperuhús í Þýzkalandi. Berlín 1911-14, Kiel 1914-18, Darmstadt 1918-22, Berlín (Deutsches Opernhaus) 1922-24, Bremen 1924-29. Hann var fastráðinn við þessi óperuhús, en 1929-32 var hann laus og liðugur og bjó í Berlín, og söng sem gestur í óperum, þar sem bezt var boðið. Hann settist að í Reykjavík 1932 og tók eftir það mikinn þátt í sönglífinu og tilheyrir sá þáttur öðrum kafla.
Á þessum árum skrapp Pétur heim til Reykjavíkur á sumrin og hélt söngskemmtanir. Fyrir fyrri heimsstyrjöldina söng hann í Bárunni 1909,1911,1913 og 1914. Síðan urðu þessar heimsóknir strjálari. Hann söng í Nýja Bíó 1921 og í Gamla Bíó 1927, 1929 og 1930, margar söngskemmtanir hverju sinni.
Söngvaraferill Péturs í Þýzkalandi er glæsilegur. Röddin blæfögur og ljóðræn með æskuhreim á þessum árum. Hann var hetjutenór. Söngskemtanir hans í Reykjavík þóttu ávallt mikill viðburður í sönglífinu. Þó var það ekki nema svipur hjá sjón hjá því, sem var að sjá hann og heyra á óperusviðinu.
Pétur mun líklega fyrstur Íslendinga hafa lagt út á söngbrautina og gerst atvinnusöngvari, að einum undanteknum, Ara Jónssyni, sem lengi var óperusöngvari í Þýzkalandi.
Árni Jónsson frá Múla og Símon Þórðarson frá Hól sungu á þessum árum opinberlega saman „Glunta“ og önnur lög. Símon hélt og sjálfstæða hljómleika. Báðir voru þeir eftirsóttir einsöngvarar með kórum. Símon hafði óvenjulega mikið raddsvið. Röddin var hreimfögur og í styrkara lagi, og á söng hans var enginn viðvaningsbragur. Mörgum eldri Reykvíkingum mun hann minnisstæður fyrir einsönginn í karlakórlaginu „Styrbjörn starke“ eftir August Körling, sem hann söng með „Fóstbræðrum“.
Benedikt Elfar söng oft opinberlega, allt frá 1914, en einkum eftir 1919. Röddin var mikil og hrjúf. Hann fékk ómilda dóma hjá Sigfúsi Einarssyni.
Eggert Stefánsson var sérkennilegur ljóðrænn söngvari. Hann sneiddi hjá óperulögum, því að raddsviðið var takmarkað að ofan og neðan, en röddin var hreimfögur og hann söng af tilfinningu. Hann kynnti sönglög eftir Sigvalda bróður sinn. „Kaldalónskvöld“ þeirra bræðra voru mjög vinsæl.
Einar Markan hélt margar söngskemmtanir á síðasta áratug þessa tímabils. Hann hafði mikla og hreimfagra barítónrödd og dramatískan kraft. Var hann í fremstu röð íslenzkra söngvara, þegar hann var upp á sitt bezta.
Hreinn Pálsson, ljóðrænn tenór, söng á árunum 1927-1928 við mikla aðsókn. Hann var ekki atvinnusöngvari, en hafði lært að syngja. Mörg íslenzk lög urðu mönnum minnisstæð í meðferð hans.
Kristján Kristjánsson, sonur Kristjáns læknis Kristjánssonar á Seyðisfirði, söng oft opinberlega í Reykjavík á árunum 1927-30, og oft eftir það, og einnig á leiksviðinu í Iðnó, eins og í „Meyjarskemmunni“. Hann hefur 1jóðræna tenórrödd, fjörmikill og góður kraftur í sönglífi bæjarins.
Sigurður Birkis var einnig ljóðrænn tenór. Miðtónarnir voru óvenjulega fallegir, en röddin var afslepp að neðan og náði fremur skammt upp á við. Hann söng oft opinberlega á þessum árum, en lagði fyrir sig söngkennslu og varð síðar söngmálastjóri kirkjunnar.
Sigurður Skagfeldt söng oft opinberlega í Reykjavík á þessum árum, allt frá 1921. Þegar hann gekk undir inntökupróf í óperuskólann í Kaupmannahöfn vorið 1924, sóttu 18 tenórar með honum. Tveir stóðust prófið og var Sigurður annar þeirra. Hann var hetjutenór, röddin hreimfögur og glæsileg. Síðar tók hann sér ættarnafnið Skagfield. Hann söng í óperum í Þýzkalandi.
Stefán Guðmundsson söng opinberlega í Nýja Bíó haustið 1929 og mun það hafa verið hans fyrsta söngskemmtun í Reykjavík. Hann á þá framundan námið í Ítalía og sinn glæsilega feril sem óperusöngvari þar í landi og síðar í Danmörku (frá 1938). Hann varð frægur undir nafninu Stefan Islandi. Söngur hans í Reykjavík tilheyrir næsta tímabili.
Arngrímur Valagils, Einar Hjaltested, Guðmundur Kristjánsson og Þórður Kristleifsson sungu allir opinberlega í Reykjavík á þessu tímabili, héldu sjálfstæða konserta, einu sinni eða tvisvar hver, en komu að öðru leyti ekki við sönglíf í bænum. Þeir höfðu allir lagt út á söngbrautin, en hurfu síðar að öðrum störfum. Þórður varð velmetinn kennari við Laugarvatnsskólann, kenndi þar m.a. söng. Hann gaf út Söngvasafnið „Ljóð og lög“, sem kom út í sjö heftum og ritaði bókina „Tónlistarmenn“, sem er safn af æviágripum frægra tónskálda og tónlistarmanna.
Þá skal minnst á fjóra karlakórsmenn, sem allir höfðu lært að syngja, þótt ekki hafi það verið ætlun þeirra að gerast atvinnusöngvarar. Þeir eru bræðurnir Daníel og Sveinn Þorkelssynir, sá fyrri málarameistari, en hinn kaupmaður. Jón Guðmundsson, verzlunarstjóri hjá Zimsen, og Óskar Norðmann, stórkaupmaður. Þeir þrír fyrstnefndu ljóðrænir tenórar, en Óskar blæfagur barytón. Allir góðir söngmenn og einsöngur þeirra í karlakórslögum er gömlum Reykvíkingum ógleymanlegur. Þeir sungu og opinberlega einsöng við ýms önnur tækifæri.
Sigurður Markan, bróðir Einars, er góður raddmaður, eins og hann á kyn til. Hann hélt sjálfstæðar söngskemmtanir og söng við ýms önnur tækifæri. Hann hefur lært að syng ja og er góður söngmaður, en hefur haft sönginn í hjáverkum. Markan systkinin koma mikið við sönglíf í bænum og verður minnst á systurnar Maríu og Elísabetu síðar. María á sér glæsilegan feril utanlands sem óperusöngkona.
Söngkonur Söngkonur á þessu tímabili verða nú taldar hér á eftir. Þær verða taldar í tímaröð, eftir því sem þær koma fram í sönglífi bæjarins.
Valborg Einarsson og Herdís Matthíasdóttir eru báðar píanóleikarar og söngkonur. Þær syngja oft á þessu tímabili, Valborg við og við út tímabilið. Laura Finsen, kona Vilhjálms Finsen ritstjóra, síðar sendiherra, er norsk. Hún er ágæt söngkona og kenndi söng. Frú Johanne Sæmundsen söng opinberlega 1912 til ágóða fyrir mannskaða samskotin. Anna Jónsson, síðar kona Tryggva Þórhallssonar forsætisráðherra, söng einsöngshlutverk á kirkjuhljómleikum í Dómkirkjunni á aldarafmæli Péturs Guðjónsens 29.nóv. 1912. Guðrún Ágústsdóttir kom fyrst fram sem einsöngvari á hljómleikum Sveinbjörn Sveinbjörnssonar sumarið 1914 Hún varð síðan mikill kraftur í sönglífi bæjarins áratugum saman. Dóra Sigurðsson, kona Haralds Sigurðssonar píanóleikara, er hér talin með íslenzkum söngkonum, en hún er austurrísk að fæðingu. Hún söng oft með undirleik manns síns á árunum 1919-30, lög eftir Schubert, Schumann, Brahms, Wolf. o. fl, einnig íslenzk lög. Hún er smekkvís og menntuð söngkona. Hún á ekki kyngikraft eða leiftrandi fegurð í röddinni, né ástríðumagn. En hún á annað. Í söng hennar er einhver hjartans ylur, sem vekur samúð manna, sem geta haft yndi af sönglist. Þó að hann komi ekki fram í stórbrotinni mynd. Íslenzk lög söng hún afbragðsvel, eins og „Ein sit ég úti á steini“ eftir Sigfús Einarsson og „Hvar eru fuglar“ eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Um undirleikinn segir Sigfús Einarsson eftir einn konsertinn: „Haraldur lék undir. Það höfum vér engan heyrt gera betur. Sárafáa jafnvel. Mátti nú glöggt heyra hvers virði undirleikurinn er í meistara höndum.“
Gagga Lund, dóttir Lund lyfsala í Reykjavíkurapóteki, hélt söngskemmtanir í Gamla Bíó haustið 1929 með aðstoð Emils Thoroddsens, og söng þá m. a. 6 íslenzk þjóðlög. Hún er góð söngkona og hefur gert þjóðlög að sérgrein sinni. Hún syngur þau frábærlega vel. Nú er hún söngkennari við Tónlistarskólann í Reykjavík. |