Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
11.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar

III Tímabilið 1900 – 1930: Tónlistarlíf í Reykjavík 1911-1930 – Tónskáld tómabilsins

Loftur Guðmundsson (1892 - 1952)
Að lokum verður hér minnst á tvo menn, sem koma fram í tónlistarlífinu á þessu tímabili, þá Loft Guðmundsson, ljósmyndara, og Þórhall Árnason, cellóleikara.

Loftur Guðmundsson er fæddur 18. ágúst 1892 í Hvammsvík í Kjós og andaðist í Reykjavík 4. janúar 1952. Hann hafði tónlistina í hjáverkum, en hann var fyrst kaupmaður í Reykjavík, síðan eigandi og framkvæmdarstjóri gosdrykkjaverksmiðjunnar Sanítas í 8 ár. Þá sneri hann sér að kvikmyndatöku og ferðaðist um landið. Kvikmyndir hans eru teknar af íslenzkri náttúru og atvinnulífi. Síðan var hann ljósmyndari og var gerður að konunglegum sænskum hirðljósmyndara árið 1928. Hann var hugvitsmaður og eru uppfinningar hans á sviði ljósmyndatækninnar. Með öðrum orðum, þá var hann fjölhæfur maður, sem lagði margt á gjörva hönd.

Eftir að Loftur hætti að verzla með kjöt, lagði hann stund á tónlist um hríð. Hann samdi tónsmíðar og kom stundum opinberlega fram sem organleikari í Reykjavík, ýmist sem einleikari eða í samleik með öðrum. þetta var á árunum um og eftir 1920.

Loftur hafði lag á að koma tónsmiðum sínum fram. Á kaffihúsum voru „Ljúflingar“, „Voþrá“ og valsinn „Freyjuspor“ spiluð. þetta voru vinsæl lög léttari tegundar. Hjá forlaginu Wilhelm Hansen í Kaupmannahöfn kom út heftið „Sex sönglög“, með íslenzkum og þýzkum textum. Lögin eru samin fyrir einsöng með píanóundirleik. Af þessum lögum eru kunnust „Biðildans“ (Viljirðu ekki elska mig ofurlítið grand) við kvæði eftir Gest, og „Vorvísa“ (Nú er glatt í borg og bæ) við kvæði eftir Guðmund Guðmundsson. Þetta eru falleg lög og mikið sungin hér áður fyrr og heyrast við og við enn.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa