| Mynd vantar |
III Tímabilið 1900 – 1930: Tónlistarlíf í Reykjavík 1911-1930 – Tónskáld tómabilsins
Sigurður Þórðarson (1895 - 1968) Sigurður Þórðarson var í hart nær 40 ár einn af forystumönnunum í íslenzku tónlistarlífi, snjall söngstjóri og þjóðkunnur sem tónskáld. Á sviði kórsöngsins komst hann langt. Karlakór Reykjavíkur á honum öðrum fremur veg sinn að þakka. Hann stofnaði kórinn, þjálfaði hann áratugum saman og leiddi hann fram til sigurs utanlands og innan.
Sigurður Þórðarson er fæddur 8. apríl 1895 að Geðhömrum í Dýrafirði, sonur hjónanna Þórðar Ólafssonar prófasta á Söndum og Maríu Ísaksdóttur. Á heimili foreldra hans var mikið sungið, en engu urðu tónlistaráhrifin minni frá manni í sveitinni, sem bæði lék á fiðlu og harmoníum. Fiðlan heillaði sérstaklega hinn unga dreng. Þegar hann síðar var kominn til náms í Leipzig, var fiðlan eitt af þeim hljóðfærum, sem hann lærði að leika á.
Á þessum árum kom Sigurði ekki til hugar að leggja fyrir sig tónlist sem aðalstarf. Hann fór í Verzlunarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi vorið 1915. Síðan var hann um stund við verzlun á Akureyri, þá í Landsbankanum í Reykjavík, en tómstundir sínar notaði hann til að læra allt það í tónlist, sem hann komst yfir, á orgel, píanó og fiðlu, hjá Sigfúsi Einarssyni, frú Önnu Pétursson, móður dr. Helga Pjeturss, - fólkið kallaði hana frú Petersen - og Oscar Johansen.
Páll Ísólfsson var einn af kennurum Sigurðar á þessum árum. Hann hvatti Sigurð til að fara utan. Sigurður fór þá til Leipzig og lagði stund á píanó, fiðlu og hljómfræði í tónlistarskólanum þar í borg árin 1916-18.
Nú hafði teningum verið kastað og Sigurður gengið tónlistinni á hönd. Hún átti að verða ævistarfið og á henni ætlaði hann sér að lifa. En þetta fór á annan veg. Eftir tveggja ára nám í Leipzig, hvarf hann hingað heim vegna fjárskorts. Verzlunarskólanámið kom honum þá að haldi. Hann gerðist skrifstofumaður, lengst af hjá fiskútflutningsfirmanu G.Copland & Co. Þegar Ríkisútvarpið tók til starfa 1930, var hann ráðinn þar skrifstofustjóri og gegndi því starfi síðan, þar til hann vegna aldurs fór á eftirlaun. Hann þótti góður starfskraftur og var jafnan settur til að gegna útvarpsstjórastarfinu í fjarveru útvarpsstjórans. En tónlistina, hugðarefnið, varð hann að hafa algjörlega í hjáverkum.
Á listamanninum Sigurði Þórðarsyni eru tvær hliðar: söngstjórinn og tónskáldið.
Sigurður kom í fyrsta sinn opinberlega fram í Reykjavík sem söngstjóri „Þrasta“ í Hafnarfirði. Kórinn var stofnaður 19. febrúar 1912 og hafði stofnandinn, Friðrik Bjarnason tónskáld stjórnað honum frá byrjun, þar til Sigurður tók við af honum árið 1923. Kórinn hafði sungið undir stjórn Friðriks við og við í Reykjavík, en undir stjórn Sigurðar söng kórinn hér í bænum á árunum 1924 og 1925. Það er fróðlegt að kynna sér það, sem tónlistargagnrýnendur blaðanna höfðu að segja. Sigfús Einarsson getur þess í söngmálablaðinu „Heimi“, að flokkurinn sé prýðilega æfður og yfirleitt beri söngurinn órækan vott um smekkvísi söngstjórans. Aðrir tónlistargagnrýnendur tóku í sama streng.
Það var ekki þægilegt á þessum árum fyrir mann, sem var búsettur í Reykjavík, að æfa og stjórna kór í Hafnarfirði. Sigurður stofnaði þá árið 1926 Karlakór Reykjavíkur og stjórnaði kórnum síðan í næstum fjóra áratugi, að einu ári undanskildu (1957), er hann tók sér frí frá söngstjórastarfinu. Kórinn tók skjótum framförum og komst brátt í fremstu röð íslenskra karlakóra. Sigurður var ávallt lífið og sálin í kórnum og setti sinn svip á hann, bæði hvað snertir verkefnaval og meðferð.
Karlakór Reykjavíkur hefur farið söngferðir til útlanda, til Norðurlanda 1935, Mið-Evrópu 1937, Bandaríkja norður Ameríku og Kanada 1946, Miðjarðarhafslanda 1953, aftur til Norðurlanda 1956 og loks til Norður-Ameríku í annað sinn 1960.
Þessar söngferðir hafa orðið góð landkynning. Erlendir tónlistargagnrýnendur í borgum beggja megin Atlantahafsins hafa farið lofsamlegum orðum um söngstjórann. Einn þýskur í Leipzig segir: „Söngstjórinn, Sigurður Þórðarson, stjórnar tígulega og lítalaust og með þægilegu hæglæti. Honum er ljóst, hvað hann ætlar sér og leikur á kórinn, sem syngur utanbókar, eins og á hljóðfæri, og gerir það með meistarahöndum“ („Leipsiger Tagezeitung“, 20. nóv, 1937 ).
Sigurður hafði á hendinni blandaðan kór árin 1931-1933, jafnframt því að hann þá æfði og stjórnaði Karlakór Reykjavíkur. Tilefnið var, að honum lék hugur á að kynna kafla úr Alþingishátíðarkantötu sinni frá 1930, og einnig úr hátíðarkantötum annara, t.d. Björgvins Guðmundssonar. Söng kórinn úrvalskafla úr þessum verkum inn á hljómplötur. Hafa plötur þessar síðan verið notaðar sem einskonar viðhafnartónlist á þjóðernislegum hátíðardögum.
Þrátt fyrir strangan vinnudag við skyldustörfin og tímafrekar kóræfingar á kvöldin eru afköst Sigurðar sem tónskálds mikil á okkar mælikvarða. Hann hefur samið óperettu, kantötur, tónsmíðar fyrir píanó, orgel, hljómsveit og fjölda sönglaga. Fátt af þessu hefur verið prentað og ekki hefur nema hluti af tónsmíðum hans verið fluttur opinberlega. Þjóðin hefur þó átt kost á að kynnast tiltölulega mörgum tónsmíðum eftir hann, enda hefur hann, söngstjórinn, átt hægt um vik, þar sem hann hefur haft kóra á hendinni.
Af prentuðum tónsmíðum eftir hann hafa komið út hjá Tonkünstler-Verlag í Vínarborg árið 1932 eftirtalin verk: Þrjú sönglög með píanóundirleik, op, 1 („Hlíðin“, „Stjarna stjörnu fegri“ og „Sofðu, sofðu, litla barnið blíða“). Píanótónsmíðar, op. 2 (Preludíum, fúga, skerzó, Kvöldljóð, fúga), Þrjú karlakórlög, op. 3 („Áin niðar“, „Syngið strengir“ og „Inn um gluggann ómur þýður“) . Ennfremur „Ave Maria“ fyrir söng, fiðlu og píanó, op. 4.
Á kostnað Gunnars Pálssonar (Gunnar R. Paulson) í Ameríku komu út árið 1944 „Fimm sönglög“ („Sjá dagar koma“, „Ó, mamma! Ég er sjúkur og sár“, „Vögguvísa“, „Sáuð þið hana systur mína“ og „Harmljóð“). Lögin eru fyrir einsöng með píanóundirleik, með íslenskum og enskum textum. Á kostnað sama manns komu út í Ameríku árið 1945 „Tíu sönglög“ úr óperettunni „Í Álögum“, fyrir einsöng með píanóundirleik.
Í íslenskum söngvasöfnum eru lög eftir Sigurð, t.d. í „Ljóðum og lögum“ og í söngvasafni L. B. K. I-II.
Í Sálmasöngsbókinni frá 1936 er gamalt íslenzkt sálmalag í raddsetningu hans: „Greinir Jesúm um græna tréð“ (nr. 135). Hann hefur einnig samið tilbrigði um þetta sálmalag í hefðbundnum 18. aldar stíl, sem er hið áheyrilegasta.
Sigurður hefur ennfremur safnað og raddsett 50 gömul passíusálmalög, flest rituð af vörum fólksins, en nokkur sótt í þjóðlagasafn Bjarna Þorsteinssonar. Þetta eru „gömlu lögin“ svokölluðu, íslenzk þjóðlög, sem gamla fólkinu þótti svo falleg, að það vildi ekki skipta á þeim og nýju lögunum, sem þá var farið að innleiða, enda hvíldi yfir þeim sá guðræknis- og helgiblær, sem það fann ekki í hinum nýja söng. Sigurður hefur raddsett lögin í anda þeirra og voru þau leikin á orgel í útvarpið á föstunni 1939 í sambandi við kvöldlestur á passíusálmunum. Lögin voru gefin út af menntamálaráði í tilefni af 300 ára minningu þess, að Hallgrímur lauk við sálmana.
Í handriti er enn megnið af tónsmíðum Sigurðar, þ.á.m. Alþingishátíðarkantatan, Skálholtskantatan, óperettan, hljómsveitarforleikur o.fl. margt af þessu hefur verið flutt í útvarp og konsertsal og er sumt til á hljómplötum og segulbandi.
Af einstökum tónsmíðum Sigurðar er ástæða til að minnast á Alþingishátíðarkantötuna frá 1930. Upphafskórinn, „Þú mikli eilífi andi“ er fagurt og tilkomumikið kórverk og vel samið. Þá er rismikill kaflinn: „Vér norrænu hetjur af konungakyni.“ Alkunnur er kaflinn „Sjá, dagar koma“: Einsöngslínan er ljóðræn og fögur og smýgur inn í hvers manns sál. Fyrir kantötuna fékk Sigurður fyrst tónskáldafrægð hjá þjóðinni.
„Formannavísur“ („Hafaldan háa“) er karlakórverk, allmikið í sniðum. Fyrir það hlaut Sigurður verðlaun í samkeppni á vegum Ríkisútvarpsins um lög við ljóð eftir Jónas Hallgrímsson. Hátíðarmessa er einnig karlakórverk og samin við hinn hefðbundna latneska texta kaþólsku kirkjunnar. ( „Gloria in excelsis Deo“, „Kyrie eleison“ o.s.frv.).Þetta er stórverk og er sérstætt að því leyti, að það er samið fyrir karlakór, en annars eru álíkar „messur“ venjulega samdar fyrir blandaðan kór.
Óperettan „Í álögum“ var frumsýnd í Iðnó í Reykjavík 25. apríl 1944. Þetta er fyrsta óperettan, sem Íslendingur semur og er því merkur söngsögulegur viðburður. Í óperettunni er ekki sá létti tónn og gázki, og efnið er viðameira en vant er að vera í slíkum verkum. Þetta er því miklu fremur sú tegund, sem Þjóðverjar nefna Singspiel (söngleik). Höfundur textans, Dagfinnur Sveinbjörnsson, hefur sótt efnið í líf þjóðarinnar á þeim tímum sem þjóðin var fjötruð af erlendri kúgun og margskonar böli - var sem í álögum. Í leikslok er álagahaminum svipt af þjóðinni fyrir ótrauða baráttu góðra manna. Um leið er lýst á táknrænan hátt viðreisnarbaráttu þjóðarinnar, er sögð saga ungra elskenda, sem þurfa að yfirstíga margskonar erfiðleika, til að fá að njótast, en allt fer vel að lokum, eins og vera ber í óperettu.
Sigurður Þórðarson hefur stílað tónsmíðar sínar fyrir píanóið, orgelið, kórinn og hljómsveitina. Hann er kunnastur fyrir kórlög og ljóðræn sönglög. Hann er fyrst og og fremst ljóðrænt sönglagatónskáld og er það eðli hans næst, að skrifa í ljóðforminu. Hin ljóðræna gáfa hans er björt og brosandi - og angurvær, þótt hann geti brugðið fyrir sig þrótti og karlmennsku, þegar efnið krefst þess.
Sigurður kvæntist 28. maí 1927 Áslaugu Sveinsdóttur frá Hvilft í Önundarfirði. Þau eignuðust tvö börn, dreng og stúlku, sem bæði dóu ung. Við fráfall sonarins samdi Sigurður lagið „Sofðu, sofðu, litla barnið blíða“, sem margir þekkja.
Það lætur að líkum, að slíkum hæfileikamanni hafi verið sýndur margvíslegur sómi. Hér skulu talin nokkur heiðursmerki, sem hann hefur verið sæmdur: Fálkaorðan, Buffalo-orða, sem er æðsta heiðursmerki, sem Manitobafylki getur veitt, medalia, sem páfinn sæmdi hann, en þessi medalia var búinn til í tilefni af heilögu ári, sem er 25. hvert ár. Hann var gerður að heiðursfélaga Winnipegborgar og að heiðursfélaga í mörgum félögum, aðallega söngfélögum. Ennfremur var hann gerður að heiðursfélaga í Þjóðræknisfélagi Íslendinga í Vesturheimi og í Scandinavian Club í Vínarborg.
Sigurður var glæsimenni og prúðmenni, undirhyggjulaus og hreinskilinn. Hann var einbeittur og þéttur í lund. Hann var drengur góður í beztu merkingu orðsins. Sigurður andaðist af hjartaslagi í Reykjavík 28. okt. 1968. |