Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
09.06.2011
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Pétur Á Jónsson
Pétur Á. Jónsson
III Tímabilið 1900 – 1930: Tónlistarlíf í Reykjavík 1900-1910

Hér verður minnst á. helztu kraftana í tónlistarlífi Reykjavíkur á þessu tímabili og verður fyrst rætt um árin 1900-1910.  

Fyrstu árin eftir aldamótin voru þeir Árni Thorsteinson, Jón Aðils, Þórður Pálsson og Júlíus Jörgensen aðaleinsöngvarar á skemmtunum í bænum. Geir Sæmundsson kom til bæjarins til að halda söngskemmtun í Dómkirkjunni með Steingrími Matthíassyni, lækni. Þetta var árið 1903. Sungu þeir einsöngva til skiptis og dúetta saman (tenór og baríton). Gunnar, bróðir Steingríms læknis, söng opinberlega í Reykjavík á þessum árum, og einnig systir þeirra Elín Matthíasdóttir, sem gjarnan söng lög eftir Jón Laxdal, sem hún giftist nokkrum árum síðar. Sigfús Einarsson kom fyrst fram í sönglífi Reykjavíkur sem einsöngvari. Hann hafði hreimfagra barytónrödd, söng opinberlega við ýms tækifæri, og stundum með frk. Valborgu Helleman, sem hann kvæntist skömmu síðar. Hún var um langt árabil einhver helzta söngkonan í bænum. Vinsælir söngmenn voru þeir frændur Pétur Halldórsson og Einar Indriðason (Viðar). Þeir héldu ekki sjálfstæða konserta, en sungu opinberlega einsöng í sambandi við kóra og önnur skemmtiatriði, eins og þá var venjan. Einar hafði sérkennilega og bjarta tenórrödd og var söngglaður, en Pétur hafði hljómfagra og karlmannlega bassarödd. Einar var sonur Indriða Einarssonar skálds og Mörtu Pétursdóttur Guðjóhnsen. Hann var fæddur árið 1887, en dó fyrir aldur fram vorið 1923. Þeir Einar og Pétur voru systrasynir. Pétur varð síðar borgarstjóri í Reykjavík.

Pétur Á. Jónsson kom fyrst fram sem einsöngvari í Bárunni sumarið 1909 og söng óperuaríur. Hann á eftir að syngja oft opinberlega í Reykjavík, eftir að hann er seztur að í Þýzkalandi og orðinn þar fastráðinn óperusöngvari. Þóttu þá heimsóknir hans hingað á sumrin jafnan mikill músíkviðburður.   

Báran
Báran
Báruhúsið eða Báran, eins og húsið var venjulega kallað, var frá 1904 aðal hljómleikahúsið í bænum, þar til Nýja Bíó var reist 1921. Fram að þeim tíma var Báran mest notuð til söngs og hljómleikahalds. 

Helztu söngkonur í Reykjavík á þessum tíma voru Elísabet Steffensen, Valgerður Lárusdóttir, Guðrún Waage, Valborg Einarsson (fædd Helleman) og systurnar Elín og Herdís Matthíasdætur skálds Jochumssonar. Herdís var einnig góður píanóleikari og hafði lært söng og píanóleik erlendis. Þessar söngkonur höfðu flestar lært að syngja meira eða minna og voru góðar söngkonur.

Á þessum árum voru það eingöngu konur, sem komu opinberlega fram sem píanóleikarar, oftast sem undirleikarar með söng, en léku þó einnig einleik á píanó í sambandi við önnur skemmtiatriði. Þessar konur eru þær Anna Pálsdóttir (systir Árna prófessors), Ásta Einarson (kona Magnúsar dýralæknis), Guðríður Jóhannsdóttir (dómkirkjuprests), Henriette Brynjólfsson (kona Péturs kgl. ljósmyndara), Herdís Matthíasdóttir, Hólmfríður Halldórsdóttir (systir Péturs borgarstjóra) , Kristrún Hallgrímsson og Valborg Einarsson. Frú Ásta Einarson var eftirsótt sem undirleikari með söng og kom hún fram sem slík allt fram til ársins 1925.  

Brynjólfur Þorláksson og Sigvaldi Stefánsson (Kaldalóns) léku á þessum árum opinberlega. með söng eða samleik með öðrum hljóðfærum.  
Hvað fiðluleik snertir þá lét Þorsteinn Jónsson járnsmiður til sín heyra fyrstu árin eftir aldamótin, en þagnar síðan, því þá eru komnir í bæinn aðrir honum snjallari. P. Bernburg lét til sín heyra 1904 og síðan lék hann á veitingahúsum í Reykjavík, lengst af á Hótel Íslands, það sem eftir var ævinnar. Hann var að vísu ekki fullnuma í listinni, en hafði meðfædda hæfileika og var líf og fjör í hljóðfæraflokknum , sem lék yfirleitt músík af léttari tegund. Meiri hrifningu vakti sænskur fiðluleikari, Oscar Johansen, sem dvali hér í kringum 1910 og ráðinn var til að leika á Hótel Íslandi, sem var eign templara. Hann lék eingöngu klassísk lög og var þá veitingasalurinn vel sóttur. Hinn vandaði flutningur hans á klassískum tónsmíðum hafði þroskandi áhrif á söngelska menn. Oscar Johansen æfði hljóðfæraflokk og kenndi á fiðlu. Einn af nemendum hans var Þórarinn Guðmundsson, sem þá var barn að aldri. Þeir bræður Eggert (píanó) og Þórarinn (fiðla) komu báðir fram á kvöldskemmtun í Bárunni árið 1909, þar sem fleira var til skemmtunar, m.a. söng þar söngfélagið Iðunn nokkur lög. Þeir voru þá á fermingaraldri, en eftir að þeir höfðu lært listina í kgl: tónlistarskólanum í Kaupmannahöfn, verða þeir arftakar hins sænska fiðlumeistara, hvað snertir góða kaffihúsamúsík í Reykjavík. 

Karlakórsöngur setti sterkan svip á sönglífið í bænum. „Kátir piltar“ undir stjórn Brynjólfs Þorlákssonar sungu oft opinberlega, og kvað mest að þeim kór. Karlakór stúdentafélagsins söng undir stjórn Árna Thorsteinson árið 1903 og oftar. Kórinn söng einnig síðar undir stjórn Sigfúsar Einarssonar.  

Blandaður kórsöngur var einnig mikill þáttur í sönglífi bæjarins og ber þá sérstaklega að nefna kirkjuhljómleika í Dómkirkjunni, sem haldnir voru oft á þessum árum undir stjórn Brynjólfs Þorlákssonar og Sigfúsar Einarssonar. Af  mörgum skal hér minnst á hljómleika í Dómkirkjunni 2. júlí 1903. Blandaður kór Brynjólfs Þorlákssonar söng þá kantötu Olufu Finsen við undirleik Sigfúsar, og „Lofsöngur“ eftir Sigfús var þar sunginn af karla- og kvennakór undir hans stjórn. Sigfús söng þar ennfremur einsöng í þremur lögum. Merkur söngviðburður voru tvær konungskantötur eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Sigfús Einarsson. Þær fyrri voru samdar í tilefni af heimsókn Friðriks VIII hingað til lands sumarið 1907. Kantata Sveinbjörns var sungin við móttöku konungs í Alþingishúsinu undir stjórn Brynjólfs Þorlákssonar. Einsöng söng Geir Sæmundsson. Kantata Sigfúsar var sungin í suðurálmu Miðbæjarskólans, sem þá var ekki fullsmíðuð, en konungur og fylgdarlið hans sat veizlu í skólahúsinu í boði Reykjavíkurbæjar. Kantötu Sveinbjörns þekkja margir, því hún hefur verið gefin út, einkum lokakórinn „Norræni, sterki stofninn ber greinar“, sem oft var síðan sunginn á samsöngvum. Kantata Sigfúsar hefur ekki verið prentuð.   

Það var ekki við því að búast, að erlendir listamenn legðu í langa sjóferð til Íslands til hljómleikahalds, meðan sjálfur höfuðstaðurinn var lítill bær, með vart meira en tíu þúsund íbúa. Það var of mikil fjárhagslega áhætta. Þó komu tveir frægir listamenn hingað á þessum árum. Frú Oda Nielsen, leikkona við konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn kom hingað sumarið 1908 og söng nokkrum sinnum í Bárunni við mikla aðsókn og hrifningu áheyrenda. Hún söng dönsk og önnur norræn þjóðlög og margt fleira af léttari tegund. Hinn listamaðurinn var hinn heimsfrægi píanóleikari Arthur Schattuck, sem spilaði í Bárunni 1910. Annar eins píanóleikur hafði aldrei áður heyrst í Reykjavík og voru hljómleikar hans lengi í minnum hafðir.   


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa