| Mynd vantar |
III Tímabilið 1900 – 1930: Inngangur
Um 1900 var hinn gamli þjóðlegi söngur að mestu þagnaður. Þjóðin söng þá ekki annað en útlend lög við íslenzka texta, þýdda eða frumsamda. Lög þeirra bræðra Jónasar og Helga voru auðvitað sungin og nokkur alkunn þjóðlög. Einstaka lög eftir þá Laxdal og Árna Thorsteinsson voru þá orðin kunn, en voru enn óprentuð.
En strax upp úr aldamótunum fóru íslenzku tónskáldin að gefa út sönglög sín. Þá verða straumhvörf. Íslenzku lögunum er vel tekið og sungin um allt landið. Þetta framlag íslenzku tónskáldanna stækkar með hverju ári, og á næsta áratug aldarinnar er því sem næst 3. – 4. hvert lag , sem þjóðin syngur, íslenzkt. Þetta, sem hér hefur verið sagt, er byggt á Íslenzku söngvasafni, I-II, sem kom út á árunum 1915 og 1916, og mun söngvasafnið vera nokkurn veginn rétt mynd af alþýðusöngnum á þeim tíma. Í safninu eru 300 sönglög, þar af 75 eftir íslenzk tónskáld og 7 íslenzk þjóðlög, samtals 82 lög.
Þetta er mikil breyting á stuttum tíma. Hún sýnir, að íslenzku lögin eru að skapi þjóðarinnar. Þessi þróun hefur síðan haldið áfram íslenzkum lögunum í vil. Meira að segja eru þess dæmi, að þjóðin hefur tekið ný íslenzk sönglög fram yfir fræg útlend lög, sem lengi höfðu verið sungin hér á landi við sömu texta. Nú er Kaldalónslagið „Ég reið um sumar aftan“ ávallt sungið, en fáir kunna gamla lagið eftir Abt við þennan texta. Nú eru lög Sigfúsar og Kaldalóns sungin við „Ríðum, ríðum og rekum yfir sandinn“, en finnska þjóðlagið heyrist ekki 1engur. Lag Björgvins Guðmundssonar við „Heyrið vella á heiðum hveri“ er nú oftast sungið við þennan texta, en þó er hið fræga lag Paciusar snjallara og betur gert. Fleiri dæmi mætti nefna, en hér skal staðar numið.
Þá verður hér stuttlega minnst á helztu tónskáldin sem kvöddu sér hljóðs um og eftir aldamótin síðustu.
Á þessum árum kynntist þjóðin sönglögum Sveinbjörns Sveinbjörnssonar við íslenzka texta, „Sverri konungi“, „Hvar eru fuglar“, „Lýsti sól“, „Töframynd í Atlantsál“ o. fl. Þjóðsöngurinn var kunnur áður. Konungskantatan var sungin og prentuð 1907. Karlakórlögin voru gefin út 1932, en mörg kunn áður. Bjarni Þorsteinsson gaf út 10 sönglög árið 1904 („Sólsetursljóð“, „Kirkjuhvoll“, „Taktu sorg mína“, „Gissur ríður góðum fáki“ o.fl.). Mörg önnur sönglög eftir hann verða snemma þjóðkunn og margar sönglagaútgáfur komu frá honum á þessu tímabili, „Sólskríkjan“ og „Fuglar í búri“ eftir Jón Laxdal voru prentuð árið 1907, en voru orðin alkunn fyrir aldamótin, t.d. er „Sólskríkjan“ á söngskrá 1893. „Vorvísur“ (Sjá roðann) voru sungnar á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar 1911 og prentaðar 1912. Lögin við kvæðaflokkana eftir Guðmund Guðmundsson, „Helga hin fagra“ og „Gunnar á Hlíðarenda“ komu út á þessu tímabili, svo og önnur sönglög höfundarins, sem komist hafa inn í alþýðusöng okkar. Árni Thorsteinsson gaf út 12 einsöngslög 1907 („Fífilbrekka“, „Já, láttu gamminn geysa fram“, „Kirkjuhvoll“, „Rósin“, „Þess bera menn sár“, „Nú ríkir kyrrð í djúpum dal“ o.fl.). Lögin í „Lénharði fógeta“ komu út 1913, og fjögur hefti með einsöngslögum komu út 1921 og 1922 og 10 karlakórlög 1924. Sigfús Einarsson gaf út 12 frumsamin karlakórlög 1903 („Þú álfu vorrar yngsta land“, „Gröfin“, „Á sprengisandi“ o.fl. Fánasöngurinn „Rís þú unga Íslands merki“ er sérprentaður 1906. „Hörpuhljómar“ komu út 1905; í þeim eru íslenzk karlakórlög, sem Sigfús safnaði, þar á meðal nokkur frumsamin af honum sjálfum, t.d. „Sjá, hin ungborna tíð“ og „Ég man þig“ . Ennfremur er í heftinu íslenzk þjóðlög í raddsetningu Sigfúsar. Alþýðusönglög I-III og 20 vísanalög hefur hann gefið út og margt fleira. Sigvaldi Kaldalóns gaf út hefti með sjö einsöngslögum 1916, og annað með þremur einsöngslögum 1917 (eitt er „Alfaðir ræður“) og hefti með tíu einsöngslögum 1918 („Heimir“ o.fl.). Þessi lög gerðu höfundinn þjóðkunnan. Síðan komu sönglög hans út sérprentuð eða í heftum („Ljúflingar“, 1930 ) og loks kom út heildarútgáfa af sönglögum hans kringum 1940. Páll Ísólfsson gaf út fjögur einsöngslög í lok þessa tímabils („Í dag skein sól“ o. fl.) Þessi lög urðu fljótt vinsæl. Annars var litið á Pál á þessum árum fyrst og fremst sem orgelsnilling, sem gat samið lagleg lög, ef hann vildi svo við hafa. Tónskáldafrægð fær hann litlu síðar fyrir Alþingishátíðarkantötuna 1930 og önnur tónverk eftir það. Jón Leifs gaf út í Berlín 1929 „25 íslenzk þjóðlög“ raddsett fyrir píanó. Eru raddsetningarnar frumlegar og sem næst eðli þjóðlaganna. Þessi lög hafði Jón Leifs leikið opinberlega í Reykjavík nokkrum árum áður og þótti nýstárleg músík. Hljómsveitarverk eftir hann lék Hamborgarorkestrið undir hans stjórn í Reykjavík sumarið 1926: Minodrama og sorgargöngulag úr „Galdra Lofti“ og forleikinn „Minni Íslands“. Þetta var nýr tónn í íslenzkri tónlist.
Óprentuð íslenzk sönglög voru stundum sungin opinberlega. Í lok þessa tímabils heyrðust við og við sungin sönglög eftir Markús Kristjánsson og Þórarin Jónsson, eins og „Bikarinn“ eftir Markús og „Heiðbláa fjólan mín fríða“ eftir Þórarinn, og fleiri lög eftir þá. Sönglög Emils Thoroddsens og Karls 0. Runólfssonar urðu ekki kunn fyrr en síðar.
Þá skal þess getið, að á þessu tímabili komu út í Íslensku söngvasafni I-II, Organtónum I-II og öðrum söngvasöfnum, lög eftir íslenzk tónskáld, eins og Friðrik Bjarnason, Inga T. Lárusson, Ísólf Pálsson, Jón Friðfinnsson, Sigurð Helgason, Þórarinn Guðmundsson o.fl., auk sönglaga eftir þau tónskáld., sem áður eru talin.
Hér að framan hafa verið nefnd flest öll tónskáldin á þessu tímabili. Sönglögin þeirra hafa verið, og eru enn, sungin í landinu. Þau eru ljóðræn og í anda rómantísku stefnu 19. aldarinnar. Þau eru persónulega mótuð og í þeim er íslenzkur andi. Þetta hefur þjóðin fundið og þess vegna fengið mætur á lögunum. Þessi íslenzki andi í lögunum hefur stundum orðið til þess, að þjóðin hefur tekið íslenzkt lag fram yfir annað betra lag útlent við sama texta. Jón Leifs er sérstæður í tónskáldahópnum. Hann semur hljómsveitarverk, en hin tónskáldin á þessum tíma nær eingöngu sönglög. Hann stefnir að því að skapa alíslenzkan tónlistarstíl, íslenska tónlist, sem háð er eigin lögmálum og með sín sérkenni, en ekki mótuð af erlendum menningaráhrifum. En í innilegustu og persónulegustu sönglögum sínum, sem hann samdi ungur, sver hann sig þó í áttina til síðrómantísku stefnunnar. Hér er sérstaklega átt við sönglögin „Máninn líður“ og „Vögguvísu“ (Þey, þey og ró) við kvæði Jóhanns Jónssonar. |