Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
11.03.2008
<< Til bakaForsíðaÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Vantar mynd

II Tímabilið 1800 – 1900: Opinber söngur og hljóðfæraleikur

Hér verður að lokum minnst á kóra, einsöngvara og hljóðfæraleikara á þessu tímabili. Íbúatalan í bænum er um 2500 í byrjun þess (1877) og 6682 í lok þess árið 1900. Í þessu litla bæjarfélagi þekkti hver maður hvern annan og átti það sinn þátt í að skapa þá stemmningu, sem ríkti ásöngskemmtunum. Kórsöngur var sterkasti þáttur í sönglífinu og aðal karlakórarnir eru kór skólapilta, „Harpa“ og „14. janúar“. Að öðrum karlakórum kveður minna.

Skólapiltar héldu venjulegan opinberan samsöng í Latínuskólanum á vorin. Áheyrendum var sérstaklega boðið og aðgangur var ókeypis. Með þeim hefst fjórraddaður karlakórssöngur hér á landi og einnig hinn „nýi söngur“, Þ. e. Bellmanslög og önnur þýzk og skandinavísk sönglög, eins og áður hefur verið sagt. Var söngur þeirra rómaður, enda söngstjórnin oft góð.

„Söngfélagið Harpa“ undir stjórn Jónasar Helgasonar var stofnað 1862 og starfaði í rúm 30 ár. Lagavalið var svipað og hjá skólapiltunum, aðallega skandinavísk og Þýzk kórlög, sem þá voru uppistaðan í karlakórsöng á Norðurlöndum. Um íslenzk lög var ekki að ræða, að undanteknum lögum eftir þá bræður Jónas og Helga. Sveinbjörn Sveinbjörnsson samdi þjóðsönginn 1874, en ekki er mér kunnugt um, hvort „Harpa“ hefur nokkurn tíma sungið það lag. Lög eftir önnur íslenzk tónskáld verða ekki kunn fyrr en um og eftir 1900.

Í „Hörpu“ voru góðir raddmenn og oft var vel og hressilega sungið undir stjórn Jónasar, bæði úti og inni. Um söng kórsins vísast að öðru leyti til greinarinnar um Jónas Helgason hér að framan.

Jónas var einn af þeim söngstjórum, sem gat haldið lífinu í kórnum áratugum saman. Þetta gátu Jón Halldórsson og Sigurður Þórðarson, söngstjórar „Fóstbræðra“ og „Karlakórs Reykjavíkur“. Aðrir söngstjórar, þótt gæddir séu góðum hæfileikum, hafa ekki getað þetta þá hefur vantað úthaldið.

„Harpa“ söng framan af á Hótel Alexandra í Hafnarstræti. Þetta var gildaskáli fyrir „heldri menn“, og þar sátu embættismenn, faktorar og aðrir „betri“ borgarar á kvöldin með vín í glösum og ræddu um landsins gagn og nauðsynjar. En er viðbyggingin hafði verið reist austan við gamla gildaskálann við Austurstræti, var það hús upp frá því kallað „Hótel Ísland“. Í viðbyggingunni hljómaði söngur miklu betur en á Hótel Alexandra og söng „Harpa“ eftir það þar lengi. Þó réðu ýmsar ástæður því, að stundum var sungið á gamla staðnum, Hótel Alexandra. Síðasti opinberi samsöngur „Hörpu“ var haldinn í Góðtemplarahúsinu árið 1893, sem þá var búið að reisa.

„Söngfélagið 14. janúar“. Þessi karlakór var stofnaður 14. jan. 1892 af Steingrími Johnsen og söng við góðan orðstír í nokkur ár (1892-96). Hefur áður verið rætt um raddgæðin og söngstjórann í greininni um Steingrím Johnsen hér að framan. Sá háttur var hafður á mörgum söngskemmtunum kórsins, að einsöngur, dúettar, terzettar og hljóðfæraleikur var hafður til tilbeytingar milli kórlaganna. Þá voru í Reykjavík góðir söngmenn, sem síðar verður minnst á. Þeir fengu þannig tækifæri til að koma opinberlega fram sem einsöngvarar, en sjálfstæða konserta héldu þeir ekki.

Kór iðnaðarmanna. Halldór bókbindari Þórðarson var formaður kórsins, sem söng í fyrsta sinn opinberlega árið 1888.  Jónas Helgason var söngstjórinn. Á þessum tíma var „Harpa“ í fullu fjöri, svo að Jónas hefur þá haft tvo karlakóra á hendinni í senn.

Það er eftirtektarvert við þennan samsöng, að söngtextarnir við erlendu lögin voru á íslenzku. Þetta var nýtt. „Harpa“ og skólapiltar sungu oftast erlendu textana. Um það eru ekki skiptar skoðanir, að góður íslenzkur texti er skilyrði þess, að sönglag fái notið sín til fulls hjá íslenzkum áheyrendum. Lagið eftir Franz Abt „Um sumardag er sólin skín“ á vinsældir sínar hér á landi að þakka kvæðinu, sem Benedikt Þ. Gröndal orti. Þýzki textinn er um þýzkan skóg og snertir ekki strengi í íslenzkri sál, - jafnvel góð þýðing myndi ekki fá hljómgrunn hjá okkur. 

Þessi samsöngur iðnaðarmannakórsins varð tilefni ádeilugreinar í „Þjóðólfi“ á erlendu söngtextana hjá „Hörpu“ og skólapiltakórnum. Þess var krafizt, að sungið sé á íslenzku, „þegar slíkir textar fyrirliggja eða séu fáanlegir.“

Þetta var þörf ábending hjá blaðinu og hefur síðan verið stefnt að þessu, en því miður hafa góðir íslenzkir söngtextar ekki ávallt verið fáanlegir og lélegir textar á íslenzku eru einskis nýtir.

Drengjakórinn „Vonin“. Frumkvæðið að stofnun kórsins átti Þorlákur Johnson, kaupmaður, en söngstjórinn var Brynjólfur Þorláksson, síðar dómkirkjuorganisti. Fyrsti samsöngur kórsins var haldinn á Hótel Ísland 30, júní 1891 við góðar unditektir. 

Erlendis er víða mikil rækt lögð við drengjakóra og eru sumir víðfrægir, eins og Thomanerkórinn í Leipzig, Wiener-Knabenkór o, fl. Þessir kórar eru sönnun þess, hve langt má komast í listinni, þegar drengirnir eru í höndum hæfileikamanna, sem kunna réttu tökin.

Í greininni um Brynjólf Þorláksson hér að framan hefur verið rætt um þennan drengjakór.

Dómkirkjan var bezti og veglegasti samkomustaðurinn í Reykjavík. Kirkjan var sjálfkjörinn staður fyrir uppfærslu á kirkjulegum tónsmiðum. Þar sungu blönduðu kórarnir, sem þeir Steingrímur Johnsen, Björn Kristjánsson og Brynjólfur Þorláksson stjórnuðu. Sungin voru klassísk kórverk og önnur lög, sem áttu við í guðshúsi. Á þessum tíma var harmoníum í kirkjunni, en pípuorgel kom ekki í hana fyrr en eftir aldamótin. Orgeltónleikar með verkum Bachs og annara meistara komu því ekki til greina.

Iðnaðarmannahúsið (Iðnó)
Iðnó var reist laust eftir 1894 og var mikið og vandað hús á þeirra tíma mælikvarða. Þetta var lengi fullkomnasta samkomuhúsið í bænum. Þar voru haldnir hljómleikar, dansleikir, stjórnmálafundir og allskonar mannfagnaður, og síðast og ekki sízt leiksýningar. Í vitund Reykvíkinga hefur Iðnó verið fyrst og fremst leikhús og er það enn.

Framan af voru söngskemmtanir haldnar í Iðnó, t. d. í janúar 1897 er þar samsöngur karla- og kvennakórs, sem syngur bak við tjaldið. Fleira var á skemmtiskránni, harmoníumsóló, hornablástur, karlakór og samleikur á 5 horn, 1 flautu, 3 fiðlur og 2 harmoníum. Síðast á skránni er „Lífið í Reykjavík“ en það eru lög eftir ýmsa, samansett af Helga Helgasyni. Þetta hefur verið fjölbreytt skemmtu.

„Músíkfélag Reykjavíkur“  sem gekkst fyrir fjölbreyttum skemmtunum með söng og hljóðfæraleik, hélt þar hljómleika í janúar 1898 og aftur í maí sama ár. Þá lék Boilleau barón á celló, en hann var snillingur á heimsmælikvarða á það hljóðfæri.

Verða nú ekki taldar fleiri söngskemmtanir í Iðnó. Þegar „Báran“ hafði verið reist laust eftir aldamótin, þótti þar sérstaklega góð hljómskilyrði og var það hús úr því lengi mest notað til hlómleikahalds.

Hljóðfæraleikur
„Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur“, sem Helgi Helgason stofnaði 1876, lét oft til sín heyra úti og inni og setti svip á bæjarlífið. Helgi kom stundum fram sem einleikari á horn á skemmtunum.

Brynjólfur Þorláksson var dáður harmoníumleikari, en þetta hljóðfæri var einkar vinsælt á þessum tíma. Brynjólfur kom oftast opinberlega fram sem hljóðafærleikari á skemmtunum af öllum hljóðfæraleikurum í bænum. Björn Kristjánsson o. fl. léku og opinberlega á þetta hljóðfæri. Þessir menn halda ekki sjálfstæða harmoníumhljómleika, heldur er leikur þeirra einn liður af mörgum á skemmtiskránni.

Sama er að segja um píanóleikara á þessum tíma. Pianóleikurinn er undirleikur með söng eða samleikur með öðrum hljóðfærum og stundum einleikur milli annara skemmtiatriða. Þá þekktust ekki píanótónleikar eins og nú tíðkast, þar sem píanóleikarinn leikur einn öll lögin á skránni. Í þá daga voru það eingöngu konur, sem léku opinberlega á píanó, og skal þá nefna frk. Ástu Sveinbjörnsson, dóttir Lárusar háyfirdómara. Hún giftist síðar Magnúsi Einarssyni dýralækni. Anna Pálsdóttir, systir Árna Pálssonar prófessors og Þórðar læknis, hins vinsæla söngmanns, sem síðar verður minnst á, lék og opnberlega á píanó. Eftir aldamótin eru fleiri píanóleikarar komnir fram í hljómlistarlífi bæjarins, allt eru það konur, og verður þeirra nánar getið síðar.

Þorsteinn Jónsson járnsmiður á Vesturgötunni er á þessum árum helzti fiðluleikarinn í bænum og leikur oft opinberlega á skemmtunum. Hann hafði kennt sér sjálfur að leika á þetta hljóðfæri og skorti vitanlega fimleik og æðri kunnáttu, en meðfædd smekkvísi olli því, að gott þótti á hann að hlýða, enda valdi hann sér falleg lög við sitt hæfi. Þorsteinn var góður söngmaður og söng í „Hörpu“ hjá Jónasi. Sjálfur æfði hann og stjórnaði um tíma kór. Gísli Guðmundsson, bókbindari, segir í viðtalsgrein, sem vitnað hefur verið til áður: „Fyrsta söngfélagið, sem ég var í, hét „Svanurinn“, sem Þorsteinn Jónsson stjórnaði. Hann kenndi með fiðlu, bráðmúsíkalskur maður, alveg sjálmenntaður, allt náttúrugáfa. Hann var indæll maður.“

Cellósnillingur á heimsmælikvarða var þá búsettur hér í bænum. Þessi maður var baróninn á Hvítárvöllum, sem hét réttu nafni Boilleau, ættaður frá Bayern í Suður-Þýzkalandi, þar sem þessi aðalsætt var upprunnin. Hann setti svip á bæinn, meðan hann dvaldizt hér, ekki sízt músíklífið. Hann var góður málamaður, talaði klassísku málin, og auk þess frönsku, þýzku og ensku. Íslenzku talaði hann lýtalaust eftir stutta dvöl í landinu.  

Árni Thorsteinson, sem kynntist honum, segir um hann: „Var þetta hámenntaður maður, fríðar sýnum, hið mesta glæsimenni og háttvís í framgöngu, eins og sönnum aðalsmanni sæmdi. Auk flygelsins, sem áður er minnst á, átti hann vanda celló, hinn mesta kjörgrip, enda lék baróninn listavel á það hljóðfæri. Held ég jafnvel, að sjálfur Casals hafi ekki tekið baróninum fram á því sviði. Boilleau barón lék oft opinberlega á cellóið í Reykjavíkurklúbbnum og víðar, en aðallega kom hann fram á samkomum góðgerða- og líknarfélaga og tók þá engin laun fyrir.

Saga barónsins verður ekki sögð hér, en nokkur leyndardómur hvíldi ávallt um einkamál hans. Búskapurinn á Hvítarvöllum misheppnaðist. Hann reisti stórt fjós á horni Hverfisgötu og Barónsstígs og var ætlunin að hafa þar kúabú, og dregur Barónsstígurinn nafn af baróninum.

Cellóleikur barónsins var öllum ógleymanlegur, sem á hlýddu, og mun listin aldrei hafa risið hærra í Reykjavík á þeirri öld.

Söngvarar
Nú á dögum syngja ekki aðrir en útlærðir söngmenn opinberlega einsöng í Reykjavík. Tími viðvaninganna er löngu liðinn og nú eru gerðar strangar kröfur. Útlærða söngmenn köllum við söngvara, og óperusöngvara köllum við þá, sem unnið hafa til þess. Að baki sér eiga þeir langt og kostnaðarsamt söngnám og hafa þeir lagt út á þessa braut með það fyrir augum að gera sönginn að ævistarfi. Nokkrir Íslendingar hafa fengið frama við óperur erlendis, en aðrir hafa sezt að hér heima og orðið að hafa sönginn að meira eða minna leyti í hjáverkum. Meðal þeirra eru beztu söngmenn þjóðarinnar.

En auk atvinnusöngvaranna hafa margir góðir raddmenn lært söng í lengri eða skemmri tíma. Þótt þeim hafi aldrei komið til hugar að leggja út á hina þyrnum stráðu listabraut. Þeir læra að syngja af sömu ástæðu og margir múskalskir menn læra að leika á píanó. Þetta er þeirra tómstundagaman.

Á síðasta fjórðungi 19. aldar voru Það áhugamenn, en ekki útlærðir söngvarar sem sungu opinberlega í Reykjavík. Þetta voru góðir raddmenn og smekkmenn á söng, sumir með öllu ólærðir, en aðrir höfðu þjálfað rödd sína um lengri eða skemmri tíma hjá söngkennurum í Kaupmannahöfn. Þeir notuðu tækifærið, þegar Þeir voru þar við nám eða önnur störf.  

Hér á eftir verður minnst á nokkra helztu söngmenn í Reykjavík á Þessum árum.

Steingrímur Johnsen er fæddur í Reykjavík og ól þar allan aldur sinn, að undanteknum námsárunum í Kaupmannahöfn. Sennilega hefur hann lært söng hjá Jerndorff, því þann mann þekkti hann. Steingrímur var einn mesti söngmaðurinn í Reykjavík á sínum tíma og söng oft opinberlega. Um hann hefurr áður verið rætt.

Geir Sæmundsson dvaldi í Reykjavík meðan hann var í Latínuskólanum. Hann varð stúdent 1887. Þá söng hann einsöng með skólapiltakórnum; röddin var svo fögur og hrífandi á þeim árum, og söngurinn svo innblásinn, að kvenfólkið viknaði, þegar hann söng hjartnans lög. Hann hafði ljóðræna tenórrödd. Þá var Geir enn ekki farinn að læra söng en það gerði hann á námsárunum í Kaupmannahöfn. Geir segir sjálfur svo frá:

Ég var snemma gefinn fyrir söng, og þótti hafa rödd svo góða, að hún væri þess verð, að henni væri einhver sómi sýndur. Var ég svo heppinn að fá söngkennslu hjá einhverjum söngmenntaðasta manni Dana um þær mundir, Pétri Jerndorff, og var ég við söngnám hjá honum í hálft þriðja ár. Ekki varð þó af því, að ég gerði sönginn að ævistarfi mínu, þó að ég með því virtist eiga glæsilega framtíð fyrir höndum, og í rauninni harma ég ekki að svo fór, þó mér verði það stundum að hitna um hjartaræturnar, Þegar ég les um sigurfarir þeirra manna, sem lærðu söng með mér, og ekki gátu talist mér neitt fremri. (Úr Æviágripi Geirs, lesið upp við biskupsvígslu hans á Hólum 10. júlí 1910).

Óperusöngvarinn Jerndorff kenndi framsögn við Konunglega leikhúsið í Höfn. Samtímis Geir við söngnám hjá honum var Vilhelm Herold, sem síðar varð frægur óperusöngvari og dáður konsertsöngvari. Báðir þessir nemendur Jerndorffs urðu fyrir því áfalli, að óperera þurfti á þeim hálsinn, og eftir það höfðu þeir ekki eins fagra söngrödd og áður. Þetta kom fyrir Geir þegar hann bjó enn á Garði, og Herold er hann hafði sungið í þrjú ár við Konunglega leikhúsið. En góðir söngmenn voru þeir eftir sem áður og allur frægðarferill Herolds, bæði utanlands og innan, lá þá framundan.

Að loknu embættisprófi í Kaupmannahöfn í janúar 1894, fór Geir Sæmundsson heim til Íslands og var við kennslustörf í Reykjavík 1894-96. Þá söng hann opinberlega við ýms tækifæri. Eitt sinn héldu Þeir Geir og Steingrímur Johnsen saman söngskemmtun, sungu þá einsöngva til skiptis og auk þess saman nokkra dúetta.

Jón Jónsson Aðils var upplagður óperusöngvari, bæði röddin og persónan voru eins og sköpuð fyrir það hlutverk. Röddin var voldug og hreimfögur barytónrödd. Á stúdentsárum hans á Garði var oft tekið lagið. Danir kölluðu hann „Jónsson med den store stemme“. Það var lagt fast að honum að læra að syngja og ganga þá braut, margir höfðu á honum tröllatrú og buðust til að styrkja hann. Hann var þá enn við nám og bjó á Garði. Hann bað um umhugsunarfrest, sagnfræðin og sönglistin toguðust á um hann - sagnfræðin sigraði.

Árni Thorsteinson varð fyrst kunnur Reykvíkingum sem söngmaður. Tónskáldinu kynntust þeir síðar. Það var ekki fyrr en um aldamótin að farið var að syngja einstaka sönglög eftir hann opinberlega, og þjóðkunnur varð hann sem tónskáld, þegar fyrsta sönglagaheftið eftir hann hafði verið prentað árið 1907. „Í söngfélögum er gott að vera“ er haft eftir honum. Þar kunni hann vel við sig og í karlakórum söng hann allt frá því að hann var í Latínuskólanum og síðast í „17, júní“ undir stjórn Sigfúsar Einarssonar. Hann var við háskólanám í Kaupmannahöfn meðan „14, janúar“ starfaði, en þá söng hann í Stúdentasöngfélaginu danska. Árni hafði barytónrödd og söng 1. bassa.

Árni hætti háskólanámi og lærði ljósmyndafræði í Kaupmannahöfn 1897. Þá lærði hann jafnframt söng hjá prófessor Salmson, gömlum óprusöngvara. Söngnámið var að vísu stutt, aðeins fimm mánuðir, en þá hafði hann lokið ljósmyndanáminu og fór til Reykjavíkur. Hann kvaðst þó hafa haft mikið gagn af náminu, enda stundaði hann það vel. Árni setti síðan upp

ljósmyndastofu í Reykjavík. Hann söng eftir það opinberlega einsöng hér í bænum við ýms tækifæri, og hafði reyndar áður komið fram sem einsöngvari með karlakórnum „14. janúar“ árið 1896. Eitt sinn sungu þeir Árni og Jón Aðils opinberlega dúetta, í Reykjavík (1899).

Þórður Pálsson, síðar læknir í Borgarnesi, var ágætur söngmaður og mikill raddmaður. Hann varð stúdent 1896 og kandidat í læknisfræði 1902. Meðan hann var í Læknaskólanum söng hann oft í Reykjavíkurklúbbnum og á samkomum. Þótt aðrir hefðu meiri raddfegurð til að bera, Þá var Þórður vinsælastur allra söngmanna í Reykjavík á þessum árum, en það átti hann því að þakka, hve andríkur söngur hans var og hve vel hann túlkaði efni textanna. Það var einmitt Þórður, sem fyrstur kynnti hin óprentuðu sönglög eftir Árna Thorsteinson. Árni lýsir þessum vini sínum þannig, að hann hafi verið söngglaður, fjörmaður, gleðimaður og mikill drengskaparmaður. Ennfremur segir Árni; „Ég tel hann hafa verið einhvern mesta söngfugl Íslendinga og beztan allra til að flytja í tónum íslenzk ljóð og efni þeirra.“

Þá skal að lokum nefna nokkra söngmenn, sem komu fram sem einsöngvarar með kórum og við önnur tækifæri.

Benedikt Þ. Gröndal hafði mjúka barytónrödd og söng mikið í kórum, síðast í „17. júní“. Hann orti kvæðið „Um sumardag er sólin skín“ við lagið eftir Franz Abt, sem þessi kór söng og innleiddi hér á landi. Jón Sveinbjörnsson, síðar konungsritari, hafði mjúka einsöngsrödd og hafði þjálfað hana í söngtímum hjá prófessor Salmson, sem áður er nefndur. Hann var ágætur raddmaður, söng í „14. janúar“ og einsöng í viðlögum. Hendrik Erlendsson, síðar læknir í Hornafirði hafði barytónrödd, kórmaður og einsöngvari. Hann var smekkmaður á söng. Nickolín tannlæknir hafði einnig barytónrödd og kom oft fram sem einsöngvari. Júlíus Jörgensen var helzti gamnavísnasöngvari bæjarins, hafði þýða rödd. Hann var stjúpsonur Halbergs hótelhaldara á Hótel Island.

Góðar kvenraddir voru þá í Reykjavík. Guðrún Waage hafði mikla og fagra sópranrödd. Hún lærði söng í Kaupmannahöfn og söng opinberlega hér í Reykjavík við ýms tækifæri.

Horft um öxl
Að lokum verður hér með fáum orðum undirstrikuð meginatriðin í þróun sönglistar hér á landi á 19. öldinni.

Á fyrri helming aldarinnar ríkti þjóðlegt sönglíf í landinu. Þá er enn blómaöld tvísöngsins. Rímurnar, „gömlu lögin“ og önnur íslenzk þjóðlög eru uppstaðan í sönglífi þjóðarinnar. Þá fara að myndast ný íslenzk þjóðlög, fyrir erlend áhrif, sem eru líflegri en þau eldri, sem flest eru fremur þunglamaleg. Sálmalög eru snar þáttur í alþýðusöngnum og undir þeim eru veraldleg kvæði og jafhvel drykkjuvísur sungnar.  

Um miðja öldina hefst „viðreisnin“ í söngnum með Pétri Guðjohnsen og eftirmönnum hans, Jónasi Helgasyni, Steingrími Johnsen o. fl. Þeir innleiða þau sönglög, sem þá eru sungin á Norðurlöndum og víðar. Með þeim kemur fjórraddaður kórsöngnr til sögunnar og allri söngþekkingu hjá þjóðinni fer mikið fram. En þessir viðreisnarmenn sæta mikilli mótspyrnu hjá gamla fólkinu, sem heldur fast við hinn gamla söng og hefur tileinkað sér tóneðli hans, en unga kynslóðin fylkir sér undir merki „hins nýja söngs“, sem á sigurinn vísan. 

Þannig eru tvennskonar straumar í sönglífinu á seinni helmingi aldarinnar, en hinn „nýi söngur“ vinnur stöðugt á og er undir lok aldarinnar orðinn einn um völdin.

Bjarni Þorsteinsson stóð með gamla fólkinu og benti á gildi hinna gömlu íslenzku þjóðlaga, sem þá voru smáð og fyrirlitin af leiðandi mönnum í sönglífi þjóðarinnar. Þetta er ekki sagt þeim til lasts. Þeir voru að Þessu leyti börn síns tíma líkt og margir samtímamenn þeirra, sem voru áhrifamenn í tónlistarlífinu á Norðurlöndum. En síðan hefur viðhorfið breyzt. Í dag þekkja menn gildi þjóðlaganna og vita, að á þeim verður þjóðleg íslenzk tónlist reist. 


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaForsíðaÁfram >>


© Músa