| Brynjólfur Þorláksson |
Brynjólfur Þorláksson (1867-1950) Brynjólfur Þorláksson fór að láta að sér
kveða í sönglífi Reykjavíkur um og eftir 1890 og
vekur strax á sér eftirtekt sem smekkvís söngstjóri
og ágætur hljóðfæraleikari. Sem harmóníumleikari
mun enginn hafa tekið honum fram, þegar hann var á bezta skeiði.
Kom hann oft fram sem einleikari á þetta hljóðfæri
og einnig sem samleikari með píanói og fiðlu. Eftir að hann
var orðinn dómkirkjuorganisti er hann um skeið aðalmaðurinn í tónlistarlífi
höfuðstaðarins.
Brynjólfur er fæddur 22. maí 1867 í Nýjabæ á Seltjarnarnesi,
sonur Þorláks Þorkelssonar, sem lengi var bóndi á Bakka á Seltjarnarnesi,
og konu hans Þórunnar Sigurðardóttur, silfursmiðs í Ráðagerði á Álftanesi,
Benediktssonar. Faðir Brynjólfs var söngelskur maður, æfði
söngflokk á Seltjarnarnesi og lék á langspil. Brynjólfur
lærði í barnaskóla á Seltjarnarnesi að þekkja
nóturnar hjá Guðmundi Einarssyni í Bollagörðum,
síðar bónda í Nesi við Seltjörn. Átján ára
gamall lærði hann organleik hjá Jónasi Helgasyni. Brynjólfur átti þá ekkert
hljóðfæri, fjárráðin leyfðu það ekki,
en fékk að æfa sig á stofuorgel hjá Benedikt Ásgrímssyni
gullsmiði á Vesturgötunni (d. 1921). Benedikt og hin kunna mannúðarkona Ólafía
Jóhannsdóttir voru systkinabörn. Benedikt leyfði fleiri
piltum að æfa sig endurgjaldslaust á stofuorgelið sitt.
Síðan lærði Brynjólfur um tveggja ára bil
píanóleik hjá frú Önnu Petersen, móður
Helga Pjeturss. Hún var ágætur kennari með menntun frá Kaupmannahöfn.
Hún hafði nemendahljómleika i Góðtemplarahúsinu
einu sinni á ári og láku þá nemendurnir saman á hljóðfærin,
stundum píanó og harmoníum saman, og mun þetta hafa
verið fyrsti vísir að hljóðfærasamleik í Reykjavík. Árið 1898
fór Brynjólfur utan með 800 króna styrk frá AlÞingi.
Lærði hann í Kaupmannahöfn tónfræði hjá Peter
Rasmussen organista við Garnisonkirkjuna og orgelleik hjá prófessor
Nebelong organista við Jóhannesarkirkjuna, sem var víðkunnur
orgelsnillingur. Brynjólfur taldi sig hafa haft mikið gagn af náminu í Kaupmannahöfn, þótt
námstíminn hafi verið stuttur - aðeins tíu mánuðir. Þar
heyrði hann góða tónlist, sótti reglulega hljómleika
konunglegu hljómsveitarinnar og fór oft í óperuna.
Þegar Steingrímur Johnsen stofnaði karlakórinn „14.
janúar 1892“ var Brynjólfur einn af þeim fyrstu, sem
gengu í það félag. Hann aðstoðaði Steingrím
og fékk stundum að taka við taktsprotanum. Kvaðst hann hafa
haft mikið gagn af vist sinni þar, því þar vandist
hann raddæfingum og þótti honum Steingrímur ágætur
söngstjóri. Ári áður, 1891, stofnaði hann fyrir
tilstilli Þorláks Johnsens, kaupmanns, drengjakór, sem hann
nefndi „Vonin“. Drengirnir voru allir undir og um fermingu. Fyrsti
samsöngur kórsins var haldinn á Hótel Ísland
30. júní 1891 og var þá meðal annars sungið lagið „Nú er
glatt í hverjum hól“ eftir Helga Helgason, en Þetta
lag hefur æskan sungið kynslóð eftir kynslóð . Eftir
námið í Kaupmannahöfn færðist Brynjólfur í aukana.
Hann varð söngstjóri söngflokks karla og kvenna, sem stofnaður
var 1900. Á næstu árum uppfærði hann söngverk
fyrir blandaðan kór, stundum í samvinnu við aðra, fyrst
Björn Kristjánsson og síðar Sigfús Einarsson, eftir
að Sigfús var kominn heim frá Höfn 1903, en Brynjólfur
var á þessum árum aðalmaðurinn í sönglífinu.
En Brynjólfur hafði fleiri járn í eldinum. Árið 1902
stofnaði hann karlakórinn „Káta pilta“,
sem skipaður
var öllum þeim beztu söngkröftum, sem þá var
völ á. Varð sá söngflokkur afar vinsæll undir
stjórn Brynjólfs og starfaði í nokkur ár. Er
hans getið í söngskrá árið 1910. Árni
Thorsteinson segir, eftir að hafa talið upp söngmennina í kórnum: „Hér
getur að líta herlið hans (Brynjólfs) - það úrvalslið -,
sem hann leiddi oft fram til sigurs á söngpallinum og auk þess
við önnur tækifæri.“ Það var einmitt þessi
kór, sem söng við konungskomuna
1907 á Þingvöllum. Þá æfði Brynjólfur
einnig konungskantötuna eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson með stórum
blönduðum kór, og hlaut sú uppfærsla einróma
lof í Alþingishúsinu undir hans stjórn.
Brynjólfur var skrifari hjá landshöfðingja 1881-1903,
nema 1898-99, er hann var við tónlistarnám í Kaupmannahöfn,
og frá 1904 vann hann sem ritari í stjórnarráðinu,
en hann var listaskrifari. Hann varð eftirmaður Steingríms Johnsens
sem söngkennari Latínuskólans og Prestaskólans. Jafnframt
kenndi hann söng í barnaskóla Reykjavíkur. Þessum
söngkennarastörfum gegndi hann til ársloka 1912, er hann hvarf
til Vesturheims.
Brynjólfur var ágætur söngkennari. Um Það getur
sá borið, sem þetta ritar og var nemandi hans bæði í barnaskólanum
og Menntaskólanum og lærði auk þess hjá honum að leika á hljóðfæri.
Undir söngsprota hans magnaðist hver maður og lagði sig fram.
Skólapiltarnir nutu þess að syngja Bellmanslög og önnur
falleg sönglög undir hans stjórn og það var til þess
tekið, hve söngur barnanna í barnaskólanum var fagur við vorprófin. Þá var
sungið í leikfimissal Miðbæjarskólans og bæjarbúar
fjölmenntu til að hlýða á.
Brynjólfur var dómkirkjuorganisti frá 1902 til ársloka
1912, er hann sagði starfinu lausu. Í viðtalsgrein, sem birt er í Tónlistinni
1945, segir hann: „Við lát Jónasar Helgasonar varð ég
organisti við Dómkirkjuna og gegndi því starfi í tíu ár.
Lagði ég ríkasta áherzlu á að fá gott
hljóðfall í kirkjusönginn og hafði æfingar á hverju
laugardagskvöldi. Stofnsetti ég reglulegan kirkjukór til Þess
að halda hljómleika, og var ágóða af þeim
söngkvöldum varið ti 1 þess að greiða fólkinu
fyrir kirkjusönginn. Áður hafði fólkið enga þóknun
fengið. Gat ég nú borgað hverjum manni fimm krónur á mánuði
gegn skuldbindingu um að mæta á öllum æfingum. Eftir þetta
tók söfnuðurinn að sér allan kostnað við sönginn.
Var þar með í fyrsta sinni komið föstu skiplagi á kirkjusönginn,
sem áður hafði verið tilviljunarkennd sjálfboðavinna.
Oganistanum voru greiddar sex hundruð krónur í árslaun.“
Ennfremur segir Brynjólfur í sömu grein: „Um áramót
1913 lét ég af forsöngvarastarfinu og hélt þá að hausti
til Vesturheims. Þar mættu mér ný verkefni. Ferðaðist ég
um Kanada og Dakota á vegum Þjóðræknisfélagsins,
kenndi unglingum kórsöng og annaðist safnaðarsöng. Var þetta
starf eftir annara umsögn talið fjöregg íslenzkrar samheldni
og þjóðrækni vestan hafs. Aukastarf mitt var hljóðfærastilling,
sem ég síðan hefi stundað. Í Íslendingabyggðunum
hafði ég með höndum barnakóra, blandaða kóra,
kvennakóra og karlakóra. Þar kynntist ég Björgvini
Guðmundssyni tónskáldi og tók við stórum
karlakór í Winnipeg, sem hann hafði stofnað. Stóð sönglíf
Vestur-Íslendinga í miklum blóma, og var hljóðfæraleikur
mjög útbreiddur. Var dvöl mín þar vestra hin ánægjulegasta,
og þar eignaðist ég marga góða vini.“
En heimþráin gerði oft vart við sig og hvarf Brynjólfur
aftur heim til Íslands 1933 og tók við söngkennslu í þremur
barnaskólum og hafði umsjón með kennslunni. Varð hann
fyrir miklum vonbrigðum í því starfi, því honum
fannst söngkennslu allri hafa hrakað mjög frá því áður
fyrr. Hann taldi þó þetta ekki sök söngkennaranna,
sem margir voru góðir, heldur var þetta fyrirkomulaginu
að kenna. Söngkennslan var ekki einkannaskyld og börnin fengust
ekki til að leggja rækt við þá námsgrein, sem
einskis var metin.
Brynjólfur gaf út nokkrar nótnabækur: Svanurinn, söngvasafn
1906,Organtónar I og II, 1910-1913 (bæði heftin
endurprentuð síðar), Safn af forspilum fyrir organista. Þessar
nótnabækur hafa verið þjóðinni hjartfólgnar
og smekkbætandi.
Brynjólfur Þorláksson var einlægur umbótamaður á sviði
kirkjusöngsins. Hann var með Sigfúsi Einarssyni í ráðum
um það, hverjum nýjum lögum skyldi bætt við og
hverjum sleppt af þeim, sem eru í eldri útgáfunni
af Kirkjusöngsbók Jónasar Helgasonar, þegar sú bók
var gefin út í annað sinn, endurskoðuð, árið 1906.
Brynjólfur kenndi organistaefnum og öðrum harmoníumleik.
Einn af nemendum hans var Sigvaldi Kaldalóns, sem þótti ganga
næst meistaranum í snilli á það hljóðfæri.
Brynjólfur hafði mikinn áhuga á dulrænum efnum
og mikill kunningi Indriða miðils. Bókin „Indriði miðill“,
sem Þórbergur Þórðarson færði í letur,
eru endurminningar Brynjólfs. (Rvík. 1942 ). Brynjólfur
var ljúfmannlegur í framkomu og vinsæll. Hann hafði þá snilli
til að bera, sem fæst ekki með lærdómi eingöngu.
Brynjólfur andaðist í Reykjavík 16. febr. 1950.
Þorkell Þorláksson, bróðir Brynjólfs, var ákaflega
listrænn eins og hann. Hann var söngmaður góður og
söng í kórum á yngri árum sínum. Hann
var lengi skrifari hjá amtmanni, og þegar það embætti
var lagt niður, þótti það sjálfsagt mál,
að hann flyttist yfir í hið nýstofnaða stjórnarráð, því hann
var listaskrifari eins og Brynjólfur bróðir hans. Hann hafði áhuga á dulrænum
efnum eins og Brynjólfur bróðir hans og var framarlega í Guðspekifélaginu.
Eftir hann er sönglagið „Fýkur yfir hæðir“ við hið alkunna
kvæði Jónasar Hallgrímssonar. Lagið þekkja
allir af eldri kynslóðinni. Þorkell andaðist 1946, Þá orðinn
79 ára gamall.
Hér á eftir fer útdráttur úr viðtalsgrein
við hinn mikla söngmann Gísla Guðmundsson bókbindara,
sem birtist í Tónlistinni 1946 í tilefni af sjötugsafmæli
hans. Gísli var fæddur söngmaður og allir bæjarbúar þekktu
hans miklu og hreimfögru tenórrödd, sem ómað hefur
innan borgarmúra Reykjavíkur í marga áratugi. Gísli
segir:
„Söngfélögin, sem ég hefi starfað í,
eru orðin allmörg. Mikil var vinnan og fyrirhöfnin við allar æfingarnar. Þetta
er samanlagt orðinn langur tími í fimmtíu og fimm ár. Þrettán
fyrstu árin söng ég kauplaust í kirkjukórnum.
Svo var kaupið tólf krónur á mánuði. Seinna
bað ég um þriggja króna kauphækkun, en fékk
ekki. Þá hætti ég um tíma, en byrjaði aftur.
Brynjólfur Þorláksson var söngstjóri á sögulegasta „konsertinum“,
sem ég man eftir. Hann var alltaf mikill smekkmaður og listastjórnandi.
Við vorum alls sextán, sem sungum þar saman í karlakór,
og höfðum „vískí“ bak við tjöldin
til að mýkja okkur. Þetta var rétt um lokin. Öll
skipin voru inni, mikið af norskum og færeyskum skipum. Við sungum
m.a. „Sjömanden“ og fengum dynjandi lófaklapp. Þegar
söngurinn var úti „marséruðum“ við niður í gegnum
Bryggjuhúsið og sungum „Sjömanden“ út yfir
höfnina, en sjómennirnir úti á skipunum klöppuðu
og hrópuðu af fögnuði. Þá var líf og
fjör. Þá var bærinn eins og eitt heimili. Nú er
allt orðið svo fínt, allt orðið eintómir flokkadrættir
og innilokun.“
Þetta er skemmtileg þjóðlífslýsing, sem
hinni mikli söngmaður bregður upp af sönglífinu í Reykjavík í „gamla
daga.“ |