| Mynd vantar |
II Tímabilið 1800 – 1900: Viðreisnartímabilið 1840 - 1900
Því verður ekki á móti mælt, að sá sönggróður
var fremur lágvaxinn, sem hér var fyrir, þegar sá útlendi
fór að flytjast hingað um og eftir miðja 19. öld, enda
varð gamli söngurinn fljótt að þoka fyrir þeim
nýja. Þjóðin tók aðfluttu sönglögunum
fegins hendi, en þau voru flest frá Norðurlöndum
og Þýzkalandi, og skáldin tóku þá að yrkja
undir þeim. Einna mest kom frá Danmörku, enda voru samskiptin
aðallega við það land, bæði efnaleg og andleg.
Dönsku áhrifin voru sérstaklega mikil í kirkjusöngnum,
allt frá því að Pétur Guðjohnsen gaf út
hina einrödduðu sálmasöngsbók sína árið 1861.
Hann tók kennara sinn, Bergreen, sér til fyrirmyndar, enda voru þeir
vinir og skiptust á bréfum með hverri póstferð.
Hann tileinkar honum fyrstu sálmasöngsbókina og þakkar
honum veitta aðstoð. Og ennfremur las Bergreen prófarkir af þeirri
síðari, sem kom út að Pétri látnum. Eftir þetta
voru enn ný dönsk sálmalög tekin í kirkjusöng
okkar, svo sem kvöld- og morgunsöngvar Weyses, sálmalög eftir
Hartmann, Gade, Rung o. fl. Pétur tók mörg sálmalög
eftir Bergreen í sálmasöngsbækur sínar og í fótspor
hans fetuðu eftirmenn hans í dómkirkjuorganistastarfinu, þeir
Jónas Helgason og Sigfús Einarsson, og tóku síðan
enn fleiri lög eftir Bergreen og önnur dönsk tónskáld í kirkjusöng
okkar. Í sálmasöngsbók okkar frá 1936 og Viðbætinum
frá 1946 eru alls 27 sálmalög eftir Bergreen, fleiri en eftir
nokkurt annað erlent tónskáld og eru þessi sálmalög
meðal þeirra, sem mest eru sungin í íslenzku kirkjunni.
Sá grundvöllur, sem Pétur Guðjohnsen lagði með sálmasöngsbókum
sínum, hefur síðan sett svip á íslenzkan kirkjusöng
fram á þennan dag. Dönsku áhrifin eru ólíkt
minni í kirkjusöng Norðmanna. Í kóralbók
norsku kirkjunnar, sem nú er í gildi, eru dönsk lög ekki
nema um 20 af um 300. Bergreen á þar aðeins tvö lög: „Hve
sæl, ó, hve sæl“ og „Ó, blessuð stund,
er burtu þokan líður.“
Hvað verzlega eða alþýðusönginn snertir á þessu
tímabili, þá var uppistaðan í honum útlend
sönglög, sem þeir Pétur Guðjohnsen og Jónas
Helgason innleiddu, fyrst Pétur með söngkennslu sinni í Latínuskólanum
og tók hann lögin úr söngvaheftum eftir Bergreen; síðan
Jónas með söngvaheftum sínum, Hörpuheftinu svonefnda árið 1875,og þeim
söngvaheftum, sem komu út á árunum 1879-1901. Lögin
voru undantekningarlítið frá Norðurlöndum og Þýzkalandi,
Steingrímur Thorsteinsson beindi athygli Jónasar að þýzkum
sönglögum, en með þeim var samvinna um söngtexta, sem
Steingrímur þýddi eða orti. Það er rétt
að minna hér á það, að hlutur Steingríms
er hér mikill, því að þessi fallegu sönglög
eiga íslenzku textunum það að þakka, að þau
voru sungin af þjóðinni. Jónasarheftin eru spegilmynd
af íslenzkum alþýðusöng á seinni hluta 19.
aldar og fram á þessa öld. Af þeim má sjá,
hve, sorglega lítið við Íslendingar sjálfir höfum
lagt afmörkum á þessu tímabili. Íslenzku
lögin í heftunum eru aðeins 8 að tölu, Þar af
eru 5 frumsamin af þeim bræðrum Jónasi og Helga, en hin þrjú eru þjóðlög. Þar
sem sönghefti Jónasar eru nú á fárra höndum,
skal þess getið, að mörg lögin voru síðan
tekin í „Íslenzkt söngvasafn“, sem kom út í tveimur
bindum árin 1915 og 1916, og mynda þar kjarnan. Jónas Helgason
taldi lagið „Máninn hátt á himni skín“ sem
einnig er sungið við textann „Góða veizlu (skemmtun)
gjöra skal“, færeyskt þjóðlag, eins og gert
er í dönskum nótnabókum, en lagið mun þó reyndar
vera gamalt íslenzkt vikivakalag, og vísast um það mál
til Þjóðlagasafns Bjarna Þorsteinssonar, bls.,633. Ef
menn vilja fallast á, að þetta lag sé íslenzkt, þá eru íslenzku
lögin í Jónasarheftunum alls níu að tölu,
og er það ekki mikið, þegar á það er litið,
að hin lögin í heftunum skipta nokkrum hundruðum.
Það var tekið fram hér að framan, að Jónasarheftin
séu spegilmynd af íslenzkum alþýðusöng á seinni
hluta 19. aldar og lengur. Þetta er rétt að öðru leyti
en því, að Jónas gekk fram hjá íslenzkum
rímnalögum og mörgum öðrum íslenzkum þjóðlögum,
sem á þeim tíma voru enn mikið sungin, einkum af gömlu
kynslóðinni.
Upp úr aldamótunum síðustu kvöddu íslenzk
tónskáld sér hljóðs, sum þó nokkru
fyrr, og var sönglögum þeirra vel tekið af þjóðinni.
Eftir þetta hefur hinn íslenzki skerfur í sönglífi
okkar stöðugt stækkað, en sá danski að sama skapi
minnkað. Í Jónasarheftunum er því sem næst
fimmtugasta hvert lag íslenzkt, en í Íslenzku söngvasafni
I=II, sem kom út á öðrum tuga þessarar aldar, er
meira en fjórða hvert lag íslenzkt og því sem
næst fimmta hvert danskt. Í söngvasöfnum, sem komið hafa út
eftir 1940, hefur hlutfallið breyzt enn íslenzkum lögum í hag,
og er nú svo komið, að 2. til 3ja hvert lag, sem alþýðan
syngur, er íslenzkt. Þetta sýnir greinilega, að sá skerfur
er orðinn stór, sem við sjálfir höfum lagt í búið,
og ennfremur það, að lögin eftir tónskáldin
okkar eru að skapi þjóðarinnar.
Dönsku lögunum fækkar óðum í alþýðusöng
okkar, en mörg munu þó halda velli enn um sinn. Ekki trúi ég öðru
en að þjóðin muni enn lengi syngja lag Weyses „Hvað er
svo glatt“, 1ag Kuhlaus „Frjálst er í fjallasal“ og
lag Schultz „Nú blikar við sólarlag“ og mörg
fleiri lög, sem börnin læra snemma og menn syngja frá vöggunni
til grafar. En það er sérstaklega eftirtektarvert í þessu
máli, að dönsku lögin eru nær undantekningarlaust
frá 19, öld, og ennfremur það, að þau eru komin
inn í alþýðusöng okkar fyrir aldamótin síðustu.
Við höfum sama og ekkert sótt í 20. aldar tónlist
Dana. Í söngvasöfnum okkar eru aðeins örfá dönsk
sönglög frá þessari öld, og hefur aðeins eitt þeirra
fæst rætur í íslenzkum jarðvegi, en það er
hið vinsæla barnalag eftir Fini Henriques (1867-1940): „Dansi
dansi dúkkan mín“, en það lag er samið árið 1907.
Það verður ekki annað sagt en að þeir Pétur
Guðjohnsen og Jónas Helgason hafi verið í snertingu við samtíð sína
hvað tónlist snertir, því að Það eru hin
rómantísku sönglög 19. aldarinnar, sem þeir innleiddu
hér, en rómantíkin var þá ríkjandi stefna í tónlist.
Dönsku áhrifin drottna enn í dag í kirkjusöngnum
okkar, enda mörg sálmalögin traust og góð, sem þjóðin
vill ekki án vera, en þau eru eftir Weyse, Bergreen, Hartmann, Gade,
Rung o. fl., að ógleymdum J. A. P, Schultz, sem tilheyrir danskri
músíksögu, þótt hann sé þýzkur,
en hann starfaði í Danmörku um tíma. Íslendingar
hafa enn sem komið er lagt lítið af mörkum til kirkjusöngsins. Í kirkjusöngsbók
okkar frá 1936 eru aðeins 17 sálmalög eftir 12 íslenzk
tónskáld, og auk þess eru þar tvö íslenzk þjóðlög í raddsetningu
nútímatónskálda okkar. Þetta er ekki mikið, þegar á það er
litið, að í bókinni eru 224 sálmalög. Þessi íslenzku
sálmalög eru flest fremur sjaldan sungin í kirkjunni. Þess
skal þó getið, að hér eru ekki talin með gömul íslenzk
sálmalög frá grallaratímanum, en þau aftur á móti
eru miklu oftar sungin við íslenzkar guðsþjónustur.
Á þessu tímabili, sem hér um ræðir, komu
fyrst fram öfl, sem síðar urðu sterk í sönglífi þjóðarinnar,
og skal þá fyrst nefna karlakórssönginn. Jónas
Helgason stofnaði fyrsta karlakórinn hér á landi, söngfélagið Hörpu, árið 1862,
og stjórnaði honum við mikinn orðstír fram undir síðustu
aldamót. Harpa var þó ekki vagga fjórraddaðs karlakórssöngs
hér á landi. Vaggan stóð í Latínuskólanum.
Skólapiltar eiga heiðurinn, eða öllu heldur söngkennarinn,
Pétur Guðjohnsen. Þar áður þekktu Íslendingar
að heita má ekki annan margraddaðan söng en tvísöng;
tvísöngur var þá aðalreglan, en undantekning, ef
sungnar voru fleiri raddir en tvær. Karlakórssöngur setti síðan
mestan svip á sönglífið út öldina og allt
fram undir 1930, en þá voru komnar margar aðrar greinar listarinnar
til sögunnar. Enn í dag er karlakórssöngur mikilsmetinn
af þjóðinni, enda eru sumir íslenzkir karlakórar
sérlega góðir. Á síðasta tug 19. aldar tók
karlakórinn „14. Janúar“ til starfa og söng í nokkur ár
við ágætar viðtökur undir stjórn hins snjalla
söngstjóra Steingríms Johnsen. Blandaðir kórar
sungu þá við og við opinberlega, þar á meðal
sönglög eftir klassísku meistarana. Björn Kristjánsson,
síðar bankastjóri og alþingismaður, kemur þar
mikið við sögu: Söngur skólapilta var ávallt
mikill þáttur í sönglífi bæjarins og héldu
skólapiltar sjálfir uppi karlakór og stjórnuðu
honum sjálfir, en af söngstjórum þeirra skal hér
nefna Árna Beintein Gíslason, sem þótti frábær,
og Bjarna Þorsteinsson.
Þá skal nefna hornaleikinn. Helgi, bróðir Jónasar,
stofnaði fyrsta hornaflokkinn hér á landi árið 1876,
sem hann nefndi Lúðraþeytarafélag Reykjavíkur.
Er þetta merkilegur söngsögulegur viðburður, því þaðan
má rekja þróun hljóðfæralistar á þessari
grein fram á þennan dag, en í höfuðstaðnum starfar
nú glæsileg sinfóníuhljómsveit, sem ber menningu
okkar fagurt vitni. Það má því með sanni segja,
að mjór er mikils vísir.
Samkvæm því, sem segir í Musíkleksikoni Gusoin
og Anker (Oslo, 1952) kom langspilið frá Noregi til Íslands
um 1700. Þetta hljóðfæri var vinsælt hér á landi
og létti mönnum marga stundina, eins og segir í þessari
vísu, sem lögð er í munn bónda á 17. öld.: Á langspilið ég leik um köld, löng og niðdimm vetrarkvöld; með leiknum raula ég lítinn óð um líf mitt, örlög vond og góð. Langspilið hverfur úr sögunni hér á landi seint á 19. öld, en þá er annað hljóðfæri komið í þess stað, en það er stofuorgelið (harmonium), sem breiddist ört út. Þetta hljóðfæri varð til þess, að gefin voru út söngvasöfn með ýmsum lögum, flestum erlendum, við íslenzk ljóð. Þjóðin tók jafnharðan við þessum lögum fegins hendi, og var þá sannkölluð söngöld, svo að önnur eins mun vart hafa risið hér á landi. Píanóum fjölgaði einnig á síðari hluta aldarinnar, og voru þau nær eingöngu í bæjum og kauptúnum. Menn léku á þau létt lög sjálfum sér og öðrum til ánægju, en píanóleikarar, sem vaxnir voru meiriháttar píanótónsmíðum komu ekki fram með þjóðinni fyrr en á þessari öld, en þess skal þó getið, að landshöfðingjafrú Olufa Finsen lék forkunnarvel á píanó, en hún var dönsk, og tónskáldið Sveinbjörn Sveinbjörnsson varð snillingur á hljóðfærið, en þeirri fullkomnum náði hann þó ekki fyrr en eftir að hann var seztur að í útlöndum og hafði lært listina hjá Reinecke í Leipzig. Um og eftir aldamótin 1900 voru það eingöngu konur, sem léku opinberlega á píanó í Reykjavík.
Nú verður sagt frá helztu sönglistarfrömuðum á þessu tímabili og verður þá fyrst sagt frá lífi og starfi fyrsta brautryðjandans, Péturs Guðjohnsens, sem stundum var kallaður „faðir sönglistarinnar á Íslandi.“ |