TvísöngslöginKaflinn um hinn íslenzka tvísöng í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar er merkilegur. Fyrst er vönduð ritgerð (bls. 764-775) og síðan prentuð 42 tvísöngslög, þau er mest voru sungin á 19. öldinni. Höfundur lýsir eðli og einkennum tvísöngsins, sem hann hefur miklar mætur á. Um tvísöng hefur áður verið rætt í upphafi þessarar ritgerðar og vísast til þess, sem þar er sagt. RímnalöginÞessi kafli er 116 blaðsíður. Fyrst er fróðleg ritgerð um rímur og rímnakveðskap, og síðan prentuð 250 rímnalög, sem Bjarni Þorsteinsson fullyrðir, að allflest séu ósvikin íslenzk rímnalög og flest skrifuð upp af honum sjálfum, eftir því sem hann hafði heyrt þau kveðin og rauluð. Rímnalögin hafa skemmt þjóðinni um langan tíma og gera það enn. Þau eru misjöfn að gæðum, en innan um finnast gullkorn. Í rímnalögunum eigum við - eins og skáldið Einar Benediktsson segir - "gimstein, illa geymdan að vísu, eins og flesta aðra dýrgripi vora, en þó ekki glataðan með öllu." Síðan skáldið sagði þessi orð kom út þjóðlagasafn Bjarna Þorsteinssonar með 250 rímnalögum, og vitanlega eru þau ekki nema brot af öllum þeim rímnalögum, sem verið hafa á vörum þjóðarinnar. Rímnalögin hafa laðað að sér tónskáldin öðrum þjóðlögum fremur, og er það skiljanlegt, því að í þeim hefur komið fram afar "fjölbreytilegur auður íslenzkra söngþanka", eins og Einar Benediktsson kemst að orði í formála fyrir "Hrönnum", ágúst 1913. Tónskáldin okkar hafa klætt marga þessa dýrgripi í listrænan búning, og stundum tekist svo vel, að orðið hafa úr hreinar perlur. Þetta hafa tónskáldin gert hvert eftir sínu höfði, í þeim stíl eða stefnu, sem þau hafa gengið upp í. En hér verður þó sérstaklega að nefna tónskáldið Jón Leifs, sem hefur skilið vel eðli þeirra og einkenni og raddsett þau á frumlegan hátt - hjá honum eru rímnalögin rammíslenzk.
|