Tónlistarsaga Reykjavíkur, tímabilið 1800 - 1900: Bjarni Þorsteinsson (1861 - 1938)
  <— Söngur skólapiltaEfnisyfirlitGömlu lögin“—>  

Íslenzk þjóðlög

Bjarni Þorsteinsson kvaddi sér ekki hljóðs sem tónskáld fyrr en um aldamótin og hið mikla rit hans, "Íslenzk þjóðlög", kom út á árunum 1906-1909, en hann safnaði lögunum og samdi ritgjörðirnar á árunum 1880-1905. Þetta rit er stórt og yfirgripsmikið, um 1000 bls. Þjóðlögin í ritinu skipta hundruðum, þar með talin 250 rímnalög. Þjóðlögin eru einrödduð, að undanteknum tvísöngslögunum, sem að sjálfsögðu eru tvírödduð. Í ritinu er í fyrsta sinn birt söngsaga Íslands frá því í fornöld og til loka 19. aldarinnar, öll byggð á frumrannsóknum höfundar. Margar fróðlegar ritgerðir eru þar um þjóðlögin okkar og íslenzk sönglagahandrit. Rit Þetta sýnir, hvílíkan fjársjóð við eigum, þar sem íslenzku þjóðlögin eru.

Skoðun höfundar er í fáum orðum þessi: Í fornum, þjóðlegum söng stöndum við Íslendingar fullt eins vel að vígi, og erum fullt eins ríkir, eftirtektarverðir og sérstæðir og í öðrum fornum þjóðlegum fræðum. Í fornum þjóðlegum söng erum við sérstakir og öðrum þjóðum ólíkir. Mörg íslenzk þjóðlög, einkum tvísöngslög og rímnalög, eru gjörólík þjóðlögum nágranna okkar.

Mörg eru dæmin, sem sanna þessa skoðun höfundarins, hve einkennileg og rammíslenzk mörg gömlu þjóðlögin okkar eru bæði að efni og búningi, og læt ég hér nægja að benda á þjóðlagið "Ísland, farsælda frón."

Áður en rit Bjarna um þjóðlögin kom út, var sú skoðun almenn, að ekki væri um auðugan garð að gresja hjá okkur Íslendingum, hvað þjóðlög snertir. Aðeins 16 íslenzk þjóðlög höfðu verið birt á prenti, þegar hann fór að safna þjóðlögum á seinni hluta 19. aldarinnar. Fimm komu út í frönsku riti 1780, eitt Þeirra er "Ár vas alda", sem Þórarinn Jónsson hefur gert úr stórt kórlag. Konrad Maurer lát prenta tvö íslenzk þjóðlög við kvæði um Friðrik Barbarossa í þýzku tímariti. Níu íslenzk þjóðlög, sem öll eru alkunn, birtust í hinu mikla þjóðlagasafni Bergreens. Þessi 16 lög voru Því einu íslenzku þjóðlögin, sem höfðu verið prentuð fram að þessu, og allir eru þeir útlendingar, sem þeim söfnuðu. Meira að segja þeir Íslendingar, sem voru óþreytandi að safna þjóðsögum, þjóðkvæðum og öðrum þjóðlegum fróðleik, og höfðu augun opin fyrir því, hvílíka þýðingu þetta hafði, gengu alveg fram hjá þjóðlögunum, eins og þau væru ekki til eða með öllu þýðingarlaus. Og það var reyndar skoðun margra, að íslenzk þjóðlög væru svo léleg og ljót, að þau væru ekki þess virði að þeim væri safnað - þau væru þjóðinni til minnkunar. Og svo var það álit margra, að þau væru ekki einu sinni íslenzk að uppruna, heldur afskræming á erlendum lögum. Þessir menn báru ekki það traust til þjóðarinnar, að hún gæti lagt neitt til frá eigin brjósti í þessum efnum.

Þetta vanmat á þjóðlögunum magnaðist við það, að þjóðin kynntist þeim erlendu sönglögum, sem þeir Pétur Guðjóhnsen og Jónas Helgason innleiddu hér. Þegar sá fegurðarheimur opnaðist, varð þjóðin heilluð. Þessi nýju lög, sem eru í Jónasarheftunum og margoft hefur verið minnst á, voru nú sungin við ættjarðarkvæði og önnur ljóð eftir skáldin okkar, sem þjóðin hafði mætur á. Flest eru þessi lög frá 19. öld og í þeim er einmitt sú tónlist, sem átti við tíðarandann.

Útlendu lögin, sem hér er átt við, eru í dúr og moll, en þær tóntegundir höfðu þá um langt skeið haft völdin í evrópiskri tónlist. Aftur á móti er þetta tóneðli ekki í þeim gömlu íslenzkum þjóðlögum, sem eru með miðaldasniði, en þar ráða kirkjutóntegundirnar og ber sérstaklega mikið á þeirri lydisku í þessum lögum. Þó eru einnig mörg þjóðlögin okkar allt frá 1600 í dúr og moll. Þessi gömlu þjóðlög fundu ekki hljómgrunn hjá þeim, sem höfðu vanið eyru sín við hinn nýja söng - þeim fannst þau blátt áfram ljót. En gamla fólkið í byggðum landsins hélt tryggð við þau og lét ekki glepjast. Í munni þess lifðu þessi gömlu og góðu íslenzku lög og það var á síðustu stundu að þeim var bjargað, því annars hefðu þau dáið út með þeirri kynslóð.

Þegar Bjarni Þorsteinsson fór að safna íslenzkum þjóðlögum, þá leitaði hann á móti straumnum. Hann fékk ekki þann stuðning hjá málsmetandi mönnum og opinberum aðilum hér heima, sem hann átti skilið, og hefði hann hvorki getað lokið verkinu né komið því út, ef merkir danskir áhrifamenn hefðu ekki komið honum til hjálpar. Hann þakkar tónskáldinu fræga, Hartmann gamla, og tónfræðingnum prófessor Anguil Hammerich að hann gat lokið verkinu og fengið það prentað á kostnað Carlbergssjóðsins. Verkið er prentað í Kaupmannahofn.

En hvernig tók þjóðin verkinu? Hún tók því fyrst með tómlæti. En tímarnir breytast og mennirnir með. Þegar frá leið sáust merki þess, að moll og dúr voru ekki lengur einráð um völdin í tónlist. Mörg tónskáld 20. aldarinnar sneru baki við tónlist 19. aldarinnar og sóttu næringu lengra aftur í tímann. Nú þóttu mönnum kirkjutóntegundirnar fallegar og töluðu um að hreinsa gömul lög, sem upphaflega voru samin í þeim, en 19. aldar menn höfðu raddsett í dúr eða moll. Og nú komu menn auga á fegurð þjóðlaganna okkar með miðaldasniðinu. Tónskáldin okkar hafa sýnt íslenzkum þjóðlögum vaxandi áhuga. Þau hafa sótt í þjóðlagsafn Bjarna Þorsteinssonar margan gimsteininn, slípað hann og fegrað, og þau hafa byggt sjálfstæðar tónsmíðar á íslenzkum þjóðlögum og þjóðlagabrotum, bæði fyrir söng og hljóðfæri. Það yrði of langt mál að telja það allt upp hér, en þess gerist ekki þörf, því þjóðin þekkir verkin.

Hér á eftir verður minnst á þrjár tegundir þjóðlaga, sem eru í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar: "gömlu lögin", tvísöngslögin og rímnalögin. Endurtek ég hér margt af því, sem ég hefi áður sagt um þessi þjóðlög í ritgerð minni um þjóðlagasafnið og önnur tónlistarstörf Bjarna Þorsteinssonar. Ritgerðin er birt í bókinni "Ómar frá tónskáldaævi", bls. 203-240, sem Siglufjarðarkaupstaður gaf út á aldarafmæli tónskáldsins árið 1961.


<— Söngur skólapiltaEfnisyfirlitGömlu lögin“ —>
VefstjóriVefur sr. Bjarna21. júlí 2001 © Músa