| Vantar mynd | I Inngangur: frá fornöld til 1800 – Leiðarvísir Ara Sæmundsens umboðsmanns
Leiðarvísir Ara Sæmundsens, en svo er sálmalagabók þessi
venjulega kölluð, kom út á Akureyri 1855. Framan við er „Leiðarvísir
til að spila á langspil, og til að læra sálmalög
eftir nótum.“ Í bókinni eru um 120 sálmalög
með bókstafanótum, því prentsmiðjan átti
ekki til nótnastíl.
Þetta er hin fyrsta sönglagabók, sem kemur út í sérútgáfu
hér á landi; Grallarinn er fyrst og fremst sálmabók,
- sálmabók með nótum. Eftir þetta fóru
að koma út kirkjusöngsbækur í sérútgáfum
og hefur sá háttur verið hafður á síðan.
Ari hefur tekið sálmalögin ýmist úr Grallaranum
eða í þeirri breyttu mynd, sem þau höfðu fengið í munni
alþýðunnar. Hann segir í innganginum: „Ég
hef sett nokkur sálmalög í dúr, sem eru í dönskum
nótnabókum í moll. “ Síðan telur
hann þessi
lög upp, sem eru 11 að tölu. Meðal þeirra eru fegurstu
sálmalög lútersku kirkjunnar, eins og „Faðir vor,
sem á himnum ert“, „Jesú Kristi, þig kalla ég á“.
Ara þykir dúr - myndin fallegri, en segir þó, að hann
búist við að sumum muni þykja þessi nótnasetning
kynleg, en „tæplega þeim manni, sem bezt allra hér á landi
hefur vit á slíku, herra organista P. Guðjohnsen“.
En hér skjátlast Ara, því Pétur Guðjohnsen
hafði allt aðra skoðun á þessu máli, og leit
svo á, að „gömlu lögin“ væru ekki annað en
afbökun á kunnum kirkjulögum, sem stafaði af skorti á tilsögn
og kunnáttu í söng og söngfræði. Þess
vegna vildi Pétur Guðjohnsen ekki taka uppí sálmasöngsbók
sína 1861 lög úr Weyse-handritinu, en þar voru lögin
nóteruð eins og þau höfðu verið lögð fyrir
Weyse og eins og þau voru sungin í Bessastaðaskóla. Því verður
ekki neitað, að þessar afbrigðilegu myndir laganna geti í sumum
tilfellum haft sjálfstætt gildi, en Pétri Guðjohnsen
verður ekki láð, þótt hann kysi heldur að birta
lögin í þeirri mynd, sem hann vissi að var réttari,
og eins og þau eru í erlendum kóralbókum. Bjarni Þorsteinsson,
sem hafði ríka tilhneigingu til að eigna slíkum afbrigðum
erlendra sálmalaga sjálfstætt gildi og kalla þau íslenzk þjóðlög,
hikaði þó í þessu tilfelli og segist ekki hafa
tekið neitt af þessum ellefu sálmalögum upp í þjóðlagasafn
sitt að svo stöddu. (Bj. Þorst.: Íslenzk þjóðlög,
bls. 477). Hinsvegar tekur Bjarni Þorsteinsson upp í þjóðlagasafn
sitt 8 lög úr bók Ara, sem hann telur íslenzk, en um
eitt þeirra, „Kristur reis upp frá dauðum“, er það að segja,
að lagið er afbökuð mynd af gömlu gregoríönsku
lagi frá því um 1200, páskaleisunni „Christ
ist erstanden“. Hjá Ara er lagið komið úr sinni upprunalegu
tóntegund og auðvitað í dúr, sem virðist vera
uppáhaldstóntegund hans.
Sálmalagið „Margt er manna bölið“ er eftir Johann
Cruger (1598-1662), kantor við Nikulásarkirkjuna í Berlín.
Hann er eitt af merkustu tónskáldum lútersku kirkjunnar
og enn í dag eru sungin sálmalög eftir hann. Um þetta
lag segir Ari: „Ég kann miklu betur við þetta lag í dúr en í moll;
en fyrst ég hef það í fimm nótnabókum í moll,
vildi ég ekki leyfa mér að setja það í dúr“: Í þýzkum
kóralbókum er lagið við textann: „Jesu, meine Freude“.
Bach hafði miklar mætur á þessu lagi og er það uppistaðan í samnefndri
mótettu eftir hann og ennfremur notaði hann þetta lag sem lokakór í tveimur
kantötum. Leiðarvísirinn til að læra að spila á langspil
framan við bókina er ýtarlegur, 22 bls., og gerði mikið gagn.
Langspilið var þá algengasta heimilishljóðfærið,
og margir léku á það af töluverðri leikni fram
yfir 1880. Þegar hin einraddaða sálmasöngsbók Péturs
Guðjohnsens kom út 1861, hafði fjöldi manna í sveitum
landsins, sem lagði sig eftir að læra hin nýju lög,
ekki annað hljóðfæri sér til hjálpar en langspilið.
Ari Sæmundsen umboðsmaður (1797-1876) var ættaður úr
Lundareykjadal í Borgarfirði. Hann lærði ungur prentiðn
hjá Magnúsi Stephensen. Jón Borgfirðingur segir, að Magnús
hafi kennt honum söng í Viðey (Rithöfundatal á Íslandi
1400-1882,Rvík. 1884, bls. 122), árið 1833 var Ari orðinn
skrifari hjá Bjarna amtmanni Thorarensen á Möðruvöllum,
og sama ár, eftir því sem Jón Borgfirðingur segir, varð hann umboðsmaður vestri hluta Munkaþverárklausturs. Hann var tvívegis settur sýslumaður. Hann kvæntist en átti ekki börn. Hann ættleiddi Pétur fósturson sinn og gaf honum nafn sitt. Pétur Sæmundsen var verzlunarstjóri á Blönduósi. Ari Sæmundsen umboðsmaður var vel að sér í mörgum greinum, sérstaklega í söngfræði og stjörnufræði.
Ekki er vitað með vissu, hvort Ari hafi lært hjá Pétri
Guðjohnsen, en honum tileinkar hann Leiðarvísirinn með þessum
orðum: „Íslands ágætasta og langmesta söngfræðingi,
herra organista Pétri Guðjohnsen tileinkast þessi ritlingur
virðingarfyllst af höfundinum.“ |