| Mynd vantar |
I Inngangur: frá fornöld til 1800 – Gregorianski söngurinn (framhald 3)
Hér að framan hefur verið rætt um kirkjusönginn hjá okkur í kaþólskri tíð; en nú verður minnst á verzlega sönginn á þeim tíma.
Við erum ekki eins heppnir og Danir, sem eiga brot af þjóðlagi frá því um 1300. Lagið er skráð með einskonar kóralnótum og er textinn lagður í munn ungrar stúlku, sem segir frá því, að hana hafi dreymt um silki og falleg föt. Handritið með þjóðlaginu heitir Codex runicus, inniheldur hina skánsku löggjöf og er ritað með rúnum. Þetta gamla þjóðlag þekkir hvert mannsbarn í Danmörku, því það hefur lengi verið notað sem þagnarmerki í danska útvarpinu.
Þótt við getum ekki með vissu bent á ákveðin íslenzk þjóðlög, sem varðveizt hafa frá kaþólskri tíð, vitum við, að þá var söngur mikill þáttur í lífi fólksins. Sæmundur Eyjólfsson hefur lýst brúðkaupssiðum á Íslandi í fróðlegri ritgerð í Tímariti Bókmenntafélagsins XVII (1896). Söngur var mikill í brúðkaupsveizlum, sem stóðu stundum í 3-5 daga. Drukkin voru minni Maríu guðsmóður, heilags anda, Krists og ýmissa dýrlinga, og fylgdi viðeigandi söngur hverju minni. Þegar hjónaskálin var borin í sængurhúsið, og brúðhjónin háttuð, var sungið fyrir henni og hún síðan drukkin. Loks voru veizlugestir sungnir úr hlaði, þegar þeim var færð hestaskál. Þessir fornu brúðkaupssiðir héldust að mestu óbreyttir fram yfir siðbót og allt framundir 1700, en að sjálfsögðu hurfu smámsaman eftir siðbótina ákall á kaþólsku dýrlingana.
Kaþólska kirkjan sigraðist á hinum heiðna átrúnaði og heiðnum siðum. Hún drottnaði yfir huga og hjarta fólksins og setti svip sinn á daglegt líf manna. Hverjum manni var skylt að kunna Ave Maria og þá gat alþýðan sungið margt á latínu, en fram til 1400 var allur andlegur kveðskapur, Maríuvers og sálmar, á latínu.
Á kaþólska tímabilinu tíðkuðust þegar þær þjóðlegu skemmtanir, sem nefndir eru vikivakar. Ólafur Davíðsson hefur ritað fróðlega ritgerð um íslenzka vikivaka og vikivakakvæði (Kbhvn. 1894). Bjarni Þorsteinsson segir um íslenzk vikivakalög þetta: Um fleiri hundruð ár tíðkuðust á Íslandi þjóðlegar gleðisamkomur, er kölluðust vikivakar; þar voru flutt vikivakakvæði, sungin vikivakalög og dansaðir vikivakadansar. Vikivakakvæðin voru venjulega fremur löng, stundum ástarkvæði, stundum skopkvæði, en oftast sögulegs efnis; þau voru ávallt þannig orkt, að við enda hvers erindis var viðlag, sem alltaf var endurtekið eins eða nær því eins; stundum var líka viðlag eða jafnvel tvö inni í miðju hvers erindis. Vér eigum mesta urmul af vikivakakvæðum undir margvíslegum bragarháttum; vikivakalögin eru færri, því mörg af þeim gleymdust og glötuðust, þegar þessar þjóðlegu skemmtanir voru lagðar niður eftir miðja 18. öld. Lögin og kvæðin voru þannig flutt á gleðisamkomum þessum, að einn söng fyrir, eitt og eitt erindi af kvæðinu, en allt fólkið tók undir og söng viðlagið; en á meðan var dansað á margvíslegan hátt, stundum karl og kona saman, stundum margir eða allir í einu, sérstakir dansar við sérstök kvæði. Stundum var einnig bæði leikið og dansað samtímis, svo margir beztu vikivakarnir voru allt í senn, frásögn kvæðisins, leikur, söngur og dans. Þau vikivakalög vor, sem tekist hefur að varðveita, eru flest einkennileg, fögur og tilbreytingarmikil, og benda þau oss greinilega á það, hve miklu vér erum sviptir, þar sem mikill hluti vikivakalaganna hefur glatast. (Bj. Þorst. Íslenzk vikivakalög og önnur íslenzk þjóðlög. Rvík. 1929)
Þá er talið, að rímur hafi um árabil verið kveðnar við dans, og sennilegt er, að hin svonefndu íslenzku fornkvæði hafi verið sungin við dans á vikivökum, eins og danskvæði Fæereyinga eru sungin og dönsuð enn þann dag í dag þar í landi. Sum íslenzku fornkvæðin voru kölluð vikivakakvæði, t.d. Ásukvæði, Ólafur liljurós, Stjúpmóðurkvæði o.fl.
En hvers eðlis var hinn verzlegi söngur hér á landi í kaþólskri tíð? Margt bendir til þess, að hann hafi verið litaður af kirkjusöngnum. Þannig var það með hinn verzlega söng hjá Dönum, eins og nú skal sagt frá. Danska tónskáldið Tomas Laub (1852-1927) var búinn að rannsaka og rita margt um dönsk þjóðlög áður en hann kyntist hinum gregorianska söng fornkirkjunnar. Hann segir frá fyrstu kynnum sínum af gregorianska söngnum með þessum orðum: Þau (gregoriönsku sönglögin) komu mér svo kunnuglega fyrir, og þó vissi ég, að ég hafði aldrei heyrt þau áður. En hvaðan þekkti ég þau? Allt í einu varð mér ljóst, að þetta voru gömlu þjóðlögin okkar, sem gægðust alsstaðar fram!
Prófessor Erik Abrahamsen (1893-1949) tekur undir þá skoðun Tómasar Laub, að náið samband sé milli kirkjusöngs miðaldanna og verzlega söngsins og telur það vísindalega sannað. Síðan kemur hann með þá eftirtektarverðu fullyrðingu, að jafnframt því að dönsk þjóðlög frá miðöldum beri greinilega merki gregorianska söngsins, þá hafi þau fengið á sig sérkennileg þjóðleg einkenni.
Eftir að dr. Angul Hammerich hefur í margnefndri ritgerð sinni greint frá ástæðum fyrir því, að svo mörg íslenzk þjóðlög hafa verðveizt til okkar daga, segir hann: Ennfremur eru hér nokkur atriði tónlistarlegs eðlis. Fjöldinn allur af gömlum íslenzkum sönglögum á beint eða óbeint rætur sínar í kirkjunni; hér er um að ræða sálma, andlega söngva, Maríuvers og þessháttar frá miðöldum, eða að sönglögin hafa fengið svip sinn af kirkjutóntegundum.
Af því, sem að framan hefur verið sagt, er ástæða til að ætla, að hinn verzlegi söngur hjá okkur í kaþólskri tíð hafi verið undir áhrifum kirkjusöngsins og þá að sjálfsögðu allur í kirkjutóntegundunum, en algengastar eru, eins og áður er sagt: dorisk d-d, frygisk e-e, lydisk f-f og mixolydisk g-g; seint á miðöldum komu svo tvær tóntegundir enn inn í kirkjusönginn: jónisk c-c (sama og c-dúr) og aeolisk a-a.
Áður er sagt, að frá kaþólskri tíð hafi varðveizt nótur af Þorlákstíðum og Credo in unum deum (í handritinu frá Munkaþverá). Báðar þessar tónsmíðar eru doriskar. Þegar fram liðu tímar náði lydiska tóntegundin, sem annars er fremur sjaldgæf með öðrum þjóðum, svo sterkum tökum á þjóðinni, að dr. Angul Hammerich taldi hana sérkennileg fyrir Ísland, og með réttu mætti kalla hana íslenzka tóntegund. |