Tónlistarsaga Reykjavíkur
með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist

eftir Baldur Andrésson
03.04.2008
<< Til bakaEfnisyfirlitÁfram >>
I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950

Mynd vantar
I  Inngangur: frá fornöld til 1800 – Gregorianski söngurinn (framhald 1)

Það má telja víst, að í hinum elztu skólum hér á landi hafi verið kennt lítið annað í söng en hinn kaþólski kirkjusöngur, sem kenndur er við Gregorius mikla páfa (590-604). Þessi kirkjusöngur hafði þá lengi verið notaður í kirkjunni, mikið af honum öldum saman. Það var áður álitið, að sá kirkjusöngur, sem kenndur er við hinn heilaga Abrosius biskup í Mílanó (374-397) hafi verið gjörólíkur gregorianska söngnum, en nú eru fræðimenn komnir á þá skoðun, að svo sé ekki og munurinn lítill annar en sá, að í ambrosiönsku tíðagerðinni eru nokkrir gamlir kirkjusiðir og kirkjulög, sem ekki voru notuð annarsstaðar (Riemann). Ambrosius kom einnig með lofsöngva í kirkjusönginn. Ekki er talið víst, að hann sé höfundur allra þeirra lofsöngva, sem honum hafa verið eignaðir, og ekki vita menn heldur, hvort lögin við þá eru eftir hann. Það er ekki öruggt, að „Ambrosianski lofsöngurinn“, Te deum laudamus, sé eftir hann.

Kaþólski kirkjusöngurinn var orðinn fjölbreyttur, því hver kirkjudeild hafði þann tíðasöng, sem þar líkaði bezt. Helgir menn og dýrlingar fengu hver sinn tíðasöng, og eins og við var að búast, voru þessar tónsmíðar misjafnar að gæðum. Gregoriusi mikla páfa er eignað það verk, að hafa samræmt kirkjusönginn, svo kaþólskar messur yrði alstaðar með líku sniði. Sagan segir, að hann hafi valið úr kirkjusöngnum beztu lögin, lagfært þau og látið skrá þau í hina miklu kórbók eða tíðabók, sem við hann er kennd, Antifonarium Gregorianum, og hlekkjað hana traustlega við háaltari Péturskirkjunnar í Róm, og mælt svo fyrir, að sá tíðasöngur, og enginn annar, skyldi framvegis notaður í kaþólsku kirkjunni.

Gregorianski söngurinn er allur á latínu og var Því kallaður latínusöngur. Hann er einraddaður og styðst hvorki við hljóma né hljóðfæri. Þetta er því hrein a capella sönglist. Um höfunda laganna vita menn ekkert, að fáeinum undantekningum, en í dag eru um 3000 gregoriönsk sönglög notuð í kirkjunni. Latneski textinn er venjulega óbundið mál og hljóðfallið fer mest eftir hrynjandi málsins, en klerkurinn, sem tónar, hefur það að öðru leyti eftir sínu höfði. Í lok miðaldanna var þessi einkvæða gregorianski stíll nefndur cantus planus, „sléttur söngur“ til aðgreiningar frá cantus mensuratus, sem þá var kominn til sögunnar, en þessi gregorianski söngur var hljóðfallsbundinn og nótnagildin fastákveðin, þótt enn væri ekki farið að nota taktstrik eða deildaskiptingu. Áður en farið var að kalla gregorianska sönginn cantus planus, var hann kallaður cantus choralis og einnig var hann oft nefndur gregorianski kórallinn og var þá átt við öll sönglögin í gregoriönsku helgisiðabókinni, bæði víxlsöngva (antifóniur) og messusöngva (gratúaliur) og aðra kórsöngva kirkjunnar.

Á þessum tíma voru gregoríönsku lögin skráð með söngmerkjum, sem eru allólík því nótnaletri, sem nú tíðkast. Þessi söngmerki nefnast naumur. Þetta er grískt orð, – nauma þýðir bending. Þessi söngmerki gáfu til kynna, hvort lagið ætti að rísa eða hníga og voru til stuðnings við minnið, en klerkum var þá skylt að kunna sem mest utanbókar og syngja bókarlaust. Þessi söngmerki sögðu ekki nákvæmlega til um það, hver nótan var, og heldur ekki hve stór tónbilin voru milli nótna. Með þessum söngmerkjum voru lögin skráð í hina miklu tíðabók Antifonarium Gregorianum, sem fest var með gullinni keðju við háaltari Péturskirkjunnar í Róm. Sú bók er löngu glötuð, en nákvæmt afrit er geymt í St. Gallen-klaustrinu í Sviss, en það klaustur er frægt í kaþólskum kirkjusöng. Síðar var farið að nota sálmanótnaletur eða svonefndar kóralnótur, sem er skyldara okkar nótnakerfi, en getur þó orðið erfitt þeim, sem ekki eru sérfræðingar.

Í kaþólskri kirkju hefur hver dagur kirkjuársins sýna sérstöku messu og er messulögunum breytt í samræmi við texta dagsins. Kollekta, pistill og guðspjall eru lesin eða tónuð, en sönglögunum má skipta í tvo flokka. Í öðrum flokknum eru textarnir eins í öllum messum, en í hinum flokknum eru þættir, sem skipta um texta eftir dögum kirkjuársins. Sá flokkurinn, sem hefur sömu föstu textana allt kirkjuárið, heitir Ordinarium missae og hefur fimm þætti: Kyrie, ákall á nafn guðs, Gloría, lofsöngur, Credo, trúarjátning, Sanctus („Heilagur, heilagur er Drottinn“) og Agnus dei („Ó, guðs lamb, er bar heimsins syndir“). Hinn flokkurinn, þar sem skipt er um texta eftir því sem á við guðþjónustu dagsins, heitir Proprium missae og eru í honum eftirtaldir þættir: Introitus (inngangur, messuinngangur), Graduale (þrepsöngur); nafnið er dregið af því, að í fornkirkjunni stóð kórinn á þrepunum, sem liggja upp að altarinu, meðan hann söng lagið; gradus = þrep, Alleluia (fagnaðaróp í texta og tónum), Offertorium (offursöngur). Textarnir eru úr Davíðssálmum. Meðan sungið var gengu fleiri eða færri af kirkjugestum upp að altarinu með offrið handa prestinum; síðar var sá siður tekinn upp, að ganga með samskotabauk um kirkjuna. Þá er Communio (kvöldmáltíð), sem er helgasta athöfnin. Upphafsliðir messunnar vaxa stöðugt upp að þessu hámarki. Síðan er messulok (Post Communio). Presturinn kveður söfnuðinn með þessum orðurn: Ite, missa est; þar af er orðið messa dregið (Latneska sögnin mittere = brottkveðja). Setningin þýðir: Farið, guðþjónustunni er lokið.

Í kaþólskri kirkju eru ákveðnar stundir til bænagjörða, svo kallaðar tíðir (Officium). Tíðasöngurinn upptók mjög klerkana og má segja, að þeir hafi verið syngjandi nótt og dag. Venjulega eru tíðirnar taldar sjö með hliðsjón af orðunum: „Sjö sinnum á dag lofa ég þig“ (Sálm. 119, 164). Tíðirnar heita: matutina (ótta, óttusöngur) kl. 3 um nóttina, prima (miðdagstíð) kl. 6 á morgnana, tertia (dagmálatíð) kl. 9 árdegis, sexta (miðdagstíð) kl. 12 á hádegi, nona (eyktartíð) kl. 3 síðdegis, vesper (aftantíð, aftansöngur) kl. 6 síðdegis og vigilia (miðnættistíð) kl. 12 um nóttina. Hverri tíðagjörð tilheyrði sérstakur söngur og sérstakur texti, en það sem sungið var voru einkum lofsöngvar, þakkargjörðir, bænir, textar úr ritningunni, einkum úr Davíðssálmum.

Ennfremur er sérstök tegund messna, hinar svonefndu sálumessur (Requiem; missa de defunctis). Sálumessurnar áttu að stytta hinum látna dvölina í hreinsunareldinum.

Af því, sem að framan hefur verið sagt má sjá, að kaþólskum klerkum var ætlað að kunna mikið í söng, svo þeir gætu staðið sig vel í stöðunni, enda reyndist allur þessi liturgiski söngur sumum þeirra ofraun og kom það fyrir, að klerkum var vikið úr embætti vegna vankunnáttu.

Af hinni frumstæðu byrjun á margrödduðum söng, paralellorganum, þróaðist margslunginn, fjölraddaður söngstíll, sem var orðinn mjög fullkominn á 15. öld í söngverkum meistaranna á Niðurlöndum, eins og flæmska tónskáldsins Josquin des Pres (ca. 1450-1521), sem var það tónskáldið, sem Lúter hafði mestar mætur á. Þessi söngstíll náði hámarki á 16. öld í verkum flæmska tónskáldsins Orlonado di Lasso eða Lassus (ca. 1530-1594), sem lifði og starfaði 40 síðustu æviárin í München, og í verkum Pierluigi da Palestrina (ca. 1526-1594), söngstjóra Péturskirkjunnar í Róm. Þessir tveir meistarar voru jafnokar og loka þeir þessu þróunartímabili, því ekki varð lengra komist í pólífóníska söngstílnum, en einkenni hans eru m.a., að hver rödd hefur sjálfstætt líf og er sjálfstæð melodia.

Kirkjutónskáld þessa tímabils lögðu sig einkum fram við þá þætti guðþjónustunnar, sem höfðu sömu föstu textana allt kirkjuárið, það er að segja, ordinarium-þættina: Kyrie, Gloria, Credo, Sanctus og Agnus dei. Hjá þessum tónskáldum verður „messan“ sjálfstætt listform og í þessum stíl hafa mörg mikilhæf tónskáld skapað tignarleg söngverk.

Söngverk pólífóníska söngtímabilsins eru án hljóðfæraundirleiks (a capella). Um 1600 hefst tímabil hljóðfæratónlistarinnar og eru þá hljóðfærin tekin í þjónustu kirkjutónlistarinnar. Á 18. og 19. öld sömdu tónskáld svonefndar konsertmessur fyrir kór, hljómsveit, einsöngvara o.s. frv., sem voru svo mikil og vandsungin, að ekki urðu flutt við venjulegar guðþjónustur í kirkjum. Konsertmessan nær hámarki í h-moll messu Bachs og í Missa solemnis eftir Beethoven. Beethoven var kaþólskur, en Bach var lúterskur og mikill trúmaður. Hversvegna samdi Bach þá kaþólska messu? Þessu er auðvelt að svara. Lúterska kirkjan hélt mörgu úr helgisiðum kaþólsku kirkjunnar, þar á meðal Kyriunni og Gloriunni. Bach samdi Kyriu og Gloriu 1733 og sendi kjörfurstanum Ágústi konungi III í Saxlandi, með umsókn sinni um nafnbótina „konunglegt hirðtónskáld“, sem honum var veitt síðar. En Bach var þannig gerður, að hann gerði ekkert verk hálft. Hann samdi því síðar (1737) tónlist við hina kaflana með hinum hefðbundna texta kaþólsku kirkjunnar, en h-moll messan er í 24 köflum.

Einraddaði gregorianski söngurinn lætur ekki mikið yfir sér, fljótt á litið, samanborið við á stórbrotnu kirkjutónlist, sem hér hefur verið rætt um; en við nánari kynni finna menn, að gömul gregoriönsku sönglögin eru frumleg og merkileg tónlist.


I. Frá fornöld til 1800II. 1800 – 1900III. 1900 – 1930IV. 1930 – 1950
<< Til bakaEfnisyfirlitÁfram >>


© Músa