| Blað úr Þorlákstíðum – sjá nánar í Ísmús |
I Inngangur: frá fornöld til 1800 – Söngur landnámsmanna
Ísland byggðist frá Noregi seint á 9. öld og leið svo meira en öld, þar til kristnin var lögtekin í landinu. Með kristninni kom hingað út kaþólski kirkjusöngurinn gregorianski söngurinn og eru til um hann góðar heimildir. Öðru máli er að gegna um söng landsmanna í heiðni, því um hann eru fornbókmenntir þögular, en þó má af þeim ráða, að einhverskonar söngur hafi verið viðhafður í sambandi við átrúnað og menn hafi trúað á töframátt þess söngs. Þannig er nafnorðið galdur dregið af sögninni að gala og seiður af að síða (= suða). En fornbókmenntirnar gefa engar upplýsingar um þann söng, sem landsmenn höfðu á þessum tíma sér til dægrastyttingar. Við getum að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að það hafi verið sami söngurinn og þá var algengur á Norðurlöndum, því þann söng hafa landnámsmennirnir flutt með sér hingað út. Það er skoðun Bjarna Þorsteinssonar, og síðan hafa norskir söngsögufræðingar haldið sömu skoðun fram, að þetta hafi verið tvísöngurinn eða kvintsöngurinn söngur norrænu víkinganna.
Tvísöngurinn tilheyrir þeirri söngtegund, sem söngsagan nefnir Organum eða Diaphonía og er byrjunin á margrödduðum söng. Organum greinist í nokkrar tegundir, en þó aðallega tvær: paralell organum og svífandi organum. Sú tegundin, sem skiptir máli, er paralell organum, en þar hreyfast raddirnar í samstígum kvörtum eða kvintum. Íslenzki tvísöngurinn er hreinn kvintsöngur. Söngsagan telur, að paralell organum hafi átt sitt blómaskeið ca. 800 - ca. 1000 á Víkingaöldinni. (Gusoin og Anker: Musik Leksikon, Oslo, 1959). Skozki heimspekingurinn Johannes Scotus minnist fyrstur á þessa söngtegund 867 og flæmski munkurinn Hucbald (840-930) lýsir henni í Musica enchiriades handriti söngsins , en síðari tíma rannsóknir hafa sannað, að þetta rit er eftir annan mann og samið nokkru eftir andlát Hucbalds. Í ritinu er tvísöngnum lýst sem alþekktri söngtegund, sem búin var að vera lengi í tízku.
Þeir fræðimenn, sem halda því fram, að tvísöngurinn sé norræn söngaðferð, byggja þá skoðun sína í því, sem merkur brezkur klerkur, Giraldus Cambrensis (1147-1222), segir í lýsingu sinni í Wales í ritinu Descriptio Cambriae, sem ritað er á latínu. Giraldus segir, að í Wales syngi menn margraddað, og að raddirnar séu jafnmargar og söngmennirnir (sennilega kanon-söngur), en fyrir norðan Humberfljót á Norðymbralandi hafi menn aðra söngaðferð; þar sé sungið tvíraddað; önnur röddin sé sungin þýtt og fagurlega, og það sé venjulega sú efri, en hin röddin sé rauluð undir. Hann segir, að þessi tvísöngur hafi lengi verið sunginn þar í landi og hann sé orðinn svo samgróinn þjóðinni, að jafnvel börn og unglingar fari í tvísöng. Þar sem þessi söngtegund þekkist hvergi annars staðar á Englandi, hyggur hann að hún hafi borizt þangað með dönskum og norskum víkingum, sem hafa haft þetta land lengi á valdi sínu; þessir norrænu menn hafi haft þar mjög mikil áhrif á málið og þá að sjálfsögðu einnig á sönginn.
Nánar um þetta mál vísast til greinar Bjarna Þorsteinssonar um hinn íslenzka tvísöng í hinu mikla og merka riti hans: Íslenzk þjóðlög, bls. 764-775. Hann segir þar meðal annars: Það er mín sannfæring af framansögðu og af öllu því, sem ég hef rannsakað og lesið um það mál, að kvintsöngurinn sé upprunninn á Norðurlöndum, að hann hafi verið orðinn þar almennur á landnámsöld vorri, að víkingarnir hafi flutt þennan söng með sér hvert sem þeir fóru, að landnámsmenn vorir hafi flutt hann með sér hingað til Íslands, að hann hafi nokkuð löngu eftir það dáið út og horfið á Norðurlöndum eins og annarsstaðar, en lifað góðu lífi á Íslandi öld eftir öld, að alveg eins standi á með kvintsönginn eins og með hið norræna mál, sem vér köllum íslenzku; hvorttveggja var almennt um öll Norðurlönd fyrir 1000 árum, hvorttveggja aflagaðist fyrst, en hvarf síðan um öll Norðurlönd, en hvorttveggja varðveittist furðanlega lítið breytt, á vorri afskekktu fósturjörð allt til vorra daga. Þess vegna höfum vér hinn sama rétt til að kalla tvísönginn íslenzkan og vora eiginlegu eign, eins og að kalla málið, sem við ritum og tölum, íslenzku.
Flestir söngsögufræðingar fullyrða ekkert um það, hvort tvísöngurinn sé upprunninn á Norðurlöndum eða annarsstaðar, og heldur ekki fullyrða þeir neitt um það, hvort hann sé kominn frá alþýðunni eða kirkjunni, því fullgildar sannanir eru ekki fyrir hendi. Tilgátur þeirra eru studdar af líkum, sem þeir benda á máli sínu til stuðnings. Í söngsögunni er Organum jafnan lýst þannig, að aðalröddin sé gregorianskt sálmalag. Þetta er samkvæmt þeim heimildum, sem menn þekkja. Danski söngsögufræðingurinn dr. Angul Hammerich, sem fyrstur hefur rannsakað íslenzku handritin, hyggur að tvísöngurinn sé ekki norræn söngaðferð, heldur upprunninn innan kirkjunnar. Íslenski tvísöngurinn sé kominn af Organum og hafi borizt hingað til Íslands með kristninni, og bendir hann á, að tvísöngurinn var kominn inn í kirkjusöng á Norðurlöndum þegar um árið 1000. (A. Hammerrich: Studier over islandsk Musik, Kbhvn. 1900).
Organum, forna nafnið á tvísöng, er latneska nafnið á orgeli. Þetta bendir til þess, að þessi tegund hafi verið leikin á hljóðfæri. Þýzkir söngfræðingar á 19. öld, svo sem Kisewetter og Oscar Paul, héldu því líka fram, að þannig hafi menn að líkindum aldrei sungið; kvintsöngur væri svo herfilega ljótur, að ekkert eyra hefði þolað slíkan söng, enda samstígir kvintar taldir kórvilla í hljómfræði öldum saman. Þegar Bjarni Þorsteinsson hitti dr. Angul Hammerich í Kaupmannahöfn laust fyrir aldamótin og sagði honum, að kvintsöngur væri enn í dag sunginn á Íslandi, þá þótti doktornum það merkilegt. Bjarni segir svo frá þessu í riti sínu Íslenzk þjóðlög, bls. 547: Og það þótti dr. Angul Hammerich meira en lítið merkilegt, er ég sagði honum (1899), að tvísöngur, reglulegur kvintsöngur, væri tíðkaður á Íslandi enn þann dag í dag og það jafnvel af hátt standandi embættismönnum landsins; hann lét mig segja sér þetta tvisvar, áður en hann trúði því fullkomlega; hann hélt að tvísöngurinn aðeins hefði verið brúkaður á Íslandi, en væri sami mörg hundruð ára gamli forngripurinn þar og í öðrum löndum álfunnar, væri aðeins til í handritum. Honum varð að síðustu ekkert annað að orði en það, sem lesa má í ritgjörð hans: Studier over islandsk Musik, bls. 40: Fænomenet er höjst mærkværdigt!. |