Baldur Andrésson cand. theol. (1897 1972)
Baldur lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík 1917, guðfræðiprófi frá Háskóla Ísland árið 1922 og námi í kirkjutónlist í Þýskalandi. Að námi loknu kenndi hann í nokkur ár við Alþýðuskólann að Eiðum en frá 1929 til dauðadags starfaði hann sem fulltrúi á borgarskrifstofu Reykjavíkur.
Baldur hélt fjölda fyrirlestra um tónlistarmál bæði í skólum og í útvarpi. Hann var um tíma tónlistargagnrýnandi Vísis, ritstjóri söngmálablaðsins Heimis og sat í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem fulltrú Reykjavíkurbæjar.
Baldur ritaði fjölda greina um tónlist í innlend og erlend tímarit og blöð. Meðal annars skrifaði hann grein um Sveinbjörn Sveinbjörnsson í Árbók Landsbókasafns Íslands 1953-54, og kaflann um tónsmíðar og tónlistarstörf séra Bjarna Þorsteinssonar í ævisögu hans, Ómar frá tónskálds ævi. Baldur samdi einnig nokkur sönglög.
Tónlistarsaga Reykjavíkur með inngangi um sögu sönglífs í landinu frá því land byggðist er mikið rit sem Baldur skildi eftir sig í óútgefnu handriti. Verkið er tæpar 500 vélritaðar síður í fjórum hlutum: I Tímabilið frá fornöld til 1800; II 1800 1900; III 1900 1930; IV 1930 1950. Þar sem mikill skortur er á útgefnum efni er tengist íslenskri tónlistarsögu má ætla að mikill fengur sé í þessu verki fyrir kennara, nemendur og aðra þá sem fræðast vilja um tónlistarlífið á Íslandi.
Skrif Baldurs geyma mikinn fróðleik um íslenskt tónlistarlíf. Músík og saga vill heiðra minningu Baldurs með því að miðla skrifum hans á vefnum og hafa aðstandendur veitt góðfúslegt leyfi fyrir sína hönd.
Vinna við uppsetningu Tónlistarsögu Reykjavíkur hófst árið 2000 og gekk lengi vel erfiðlega að fá stuðning til verksins. Reykjavíkurborg veitti 2008 stuðning sem gerði mögulegt að ljúka verkinu. Eftir því sem tími og fjármunir leyfa munu fleiri textum eftir Baldurs verða gerðir aðgengilegir. |